144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:42]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill taka fram að hann hefur verið mikill áhugamaður um að koma á sérstökum umræðum eftir því sem hægt hefur verið og tekur undir það að það er eðlilegur þáttur í starfi þingsins að fram fari sérstakar umræður um brýn mál sem kallað er eftir. Hann mun freista þess í næstu viku að slíkar umræður geti farið fram og reynir að ná samkomulagi um það við þingflokksformenn og aðra sem málið varðar.

Forseti hafði auðvitað ekki gert sér í hugarlund að þinghaldið mundi tefjast eins og raunin hefur orðið á og það er skýringin á því að ekki hefur verið lögð áhersla á umræður af því tagi sem hér er kallað eftir. Forseti mun í næstu viku freista þess að við komum á einhverjum sérstökum umræðum.