144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér öðru sinni frestun ráðherra Framsóknarflokksins á lögum um náttúruvernd. Það hlýtur að segja sitt um forgangsröðun náttúruverndar í ríkisstjórn að á ríflega hálfu kjörtímabili hafi ekkert þokast í þessum málum annað en að reyna fyrst að fella lög úr gildi og síðan að fresta þeim, fyrst af hæstv. ráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni og nú hæstv. núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra.

Mig langar að spyrja ráðherra um forgangsröðun starfa innan ráðuneytisins, af því að ekki reikna ég með öðru en að starfsfólk ráðuneytisins hafi unnið allt hér eins vel og hægt er. Gefinn var 15 mánaða frestur til að endurskoða lögin í mars 2014. Síðan ári seinna lágu loksins drög fyrir að frumvarpi til að kynna á heimasíðu ráðuneytisins. Telur ráðherra það sýna forgang ráðuneytisins í náttúruverndarmálum að það taki heilt ár að leggja fram tillögu að breytingu á lögum sem þegar upp er staðið er til þess að gera nokkuð skýr og einföld tillaga?

Þá langar mig að nefna það sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir benti á varðandi umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis sem mér þótti hæstv. ráðherra ekki svara nægjanlega. Þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Hvorki hefur verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum sem fylgja gildistöku laganna í fjárlögum ársins 2015 né í langtímaáætlun í ríkisfjármálum.“

Það skil ég sem svo að eigi við um lögin sem hér er rætt um að fresta gildistöku á, lög sem áttu að taka gildi í ár og sem áttu að gilda hálft þetta ár hafi ekki verið í fjárlögum eða langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Var einhvern tíma ætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra að þessi lög tækju gildi á yfirstandandi ári eins og til stóð eða var frá upphafi ætlast til þess að þessir 15 mánuðir væru aðallega nýttir til að teygja lopann og síðan yrði beðið um enn eina frestunina? Enn fremur: Getur hæstv. ráðherra sagt okkur hversu langt drögin eru komin í dag? Hvar stendur þetta skjal í dag í ráðuneytinu? Megum við búast við því að á fyrstu dögum í fyrstu þingviku í haust verði þetta frumvarp tilbúið til framlagningar?