144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nota tækifærið og flytja hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur þakkir fyrir að biðja um þessa ágætu skýrslu sem kom út um helgina og sýnir fram á hversu gríðarlega vel heppnuð aðgerð skuldaleiðrétting ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er. Það hefur komið nokkuð fram í fréttum að 1.250 heimili hafi fengið 1,5 milljarða kr. í skuldaleiðréttingu. Það þýðir að það eru 55.800 heimili sem skipta með sér um 88,5 milljörðum kr. Hvernig skiptist þetta? Þetta skiptist gróflega þannig að stærsti hluti leiðréttingarinnar kemur í hlut þeirra sem eru með meðaltekjur og minni, þetta kemur í hlut fólks þar sem tvær fyrirvinnur eru á heimili með miðlungstaxta ASÍ-félaga, miðlungstaxta BSRB-félaga og miðlungstaxta BHM-félaga. Þetta er fólkið sem talað var um hér í ræðu um daginn að væri að auka auð sinn. Ég væri ofsalega feginn ef BHM-félagar og BSRB-félagar gætu aukið auð sinn, það væri mér mikið gleðiefni. Það hlýtur að vera líka umhugsunarefni þeim félögum sem nú standa í kjarabaráttu að fá svona skilaboð frá vinstri mönnum á Alþingi Íslendinga að meðaltekjufólk á Íslandi sé að auka auð sinn.

Það er eitt sem hægt er að fara yfir í þessu, það er að algeng lækkun lána með leiðréttingunni er í kringum 1,5 millj. kr., það þýðir lækkun greiðslubyrði upp á 10–12 þús. kr. á mánuði sem gerir 120–150 þús. kr. á ári, í kringum 3 millj. kr. á 20 ára líftíma lánsins. Þarna erum við komin í 4,5 millj. kr., plús það ef menn geta notað séreignarsparnað sem er um 2 millj. kr. á því tímabili sem gefið er. Þarna getur meðalfjölskyldan sparað sér u.þ.b. 6,5 millj. kr. Þetta er eins og að fá eitt tekjuskattslaust ár eins og var hér um árið. Eitt skattlaust ár. Svona virkar þessi leiðrétting vel.