144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Þau okkar sem upplifðum hrunið hér á landi haustið 2008 getum varla annað en leitt hugann að Grikkjum þessa daga. Eftir að hafa verið í stöðugri krísustjórnun á vegum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins síðustu fimm árin virðist landið komið á ákveðna endastöð. Á sunnudaginn greiðir gríska þjóðin atkvæði um drög að samningi sem mundi krefjast enn frekari niðurskurðar á velferðarkerfinu, velferðarkerfi sem hefur stöðugt verið gengið á, velferðarkerfi sem rétt hangir á horriminni. Hér er meira í húfi en fjármálakerfið. Er lýðræðiskerfið komið þangað að það snúist bara um lögmál hagkerfisins, að fjármálaráðherra Þýskalands ráði meiru um örlög grískra spítala og grískra lífeyrisþega en grísk stjórnvöld sjálf?

Í samskiptum sínum við Grikkland undanfarið hafa Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sýnt auðvaldinu allt of mikla þjónkun á kostnað almennings í Grikklandi. Það kom til dæmis skýrt í ljós þegar ríkisstjórn Alexis Tsipras lagði til að verða við niðurskurðarkröfu ESB og AGS með einföldum hætti, að skera niður í hermálum. Atlantshafsbandalagið áætlar að heil 2,4% af þjóðarframleiðslu Grikkja renni til hermála á yfirstandandi ári þannig að þarna eru greinilega mikil sóknarfæri í að draga úr ríkisútgjöldum. En þá háttar svo til að 15% af útflutningi Þjóðverja á hergögnum renna til Grikkja og 10% hergagnaútflutnings Frakka fara sömu leið. Tillögum ríkisstjórnar Grikklands um að mæta niðurskurðarkröfunni með niðurskurði í hermálum var því hafnað af viðsemjendunum. En hvort er það í þágu grísks almennings eða auðvaldsins í kjarnaríkjum Evrópusambandsins?

Þær spurningar sem Grikkir standa frammi fyrir núna um helgina varða miklu meira en bara fjárhag gríska ríkisins, þær varða lýðræðisþróun í Evrópu og lýðræðisþróun almennt í heiminum. Og við skulum fylgjast með.