144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Síðasta ríkisstjórn fór í það sem var þá kallað jafnlaunaátak til þess að reyna að ná fram hækkun launa í stórum kvennastéttum. Þetta var markviss stefna til að reyna að hífa þær upp. Mér hefur ekki þótt það verkefni ganga nægilega vel eftir hjá nýrri ríkisstjórn og vona að hún hysji nú upp um sig og haldi áfram að vinna eftir þeirri stefnumörkun, vegna þess að stóru kvennastéttunum hjá hinu opinbera hefur að mörgu leyti verið haldið niðri.

Varðandi menntun og laun eigum við auðvitað að meta menntun til launa og það er sanngjörn krafa. Það verður að hífa upp stóru kvennastéttirnar, eins og heilbrigðisstéttirnar og menntastéttirnar, í opinbera geiranum, það er einfaldlega þannig. Við höfum stutt það og sýnt í verki, t.d. með því að leggja af stað með jafnlaunaátakið, en því miður var því ekki fylgt nægjanlega vel eftir.

Ég verð að segja um skattkerfið að við höfum talað fyrir þrepaskiptu skattkerfi vegna þess að það á að nota skattkerfið til tekjujöfnunar. Það er mælt með því af OECD, það er mælt með því af fjölmörgum alþjóðastofnunum til þess að reyna að minnka tekjubil hópa og sækja skatta á sanngjarnan hátt.

Virðulegi forseti. Þegar við horfum á millitekjuhópana sem oft eru með gríðarlega þunga byrði, unga fólkið og barnafólkið, þá eigum við að nota verkfæri eins og barnabætur og vaxtabætur til að mæta þeim hópum á þyngsta tímabili lífsins hvað varðar útgjöld. Þessi ríkisstjórn er núna að fara að greiða út 1/3 af þeim vaxtabótum sem fráfarandi ríkisstjórn greiddi út þegar sem mest var. (Forseti hringir.) Ég hef áhyggjur af áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á því að nota þau verkfæri til að beita skattkerfinu til að létta undir með þeim hópum sem þyngsta byrðina hafa.