144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í þessu máli, auk mín hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Helgi Hjörvar og Valgerður Bjarnadóttir, hefur látið koma fram að við teljum að breytingartillaga stjórnarmeirihlutans varðandi 1. gr. frumvarpsins sé mjög til góðs. Hún gerir ráð fyrir því að ráðherra geti ekki flutt stofnun að eigin geðþótta því að áður verði hann að hafa lagt fyrir þingið skýrslu þar sem færð eru rök fyrir áformum um flutninginn.

Hins vegar höfum við gagnrýnt önnur ákvæði þessa frumvarps, t.d. lögfestingu tiltekinna ráðherranefnda án þess að nægileg umræða hafi farið fram um stjórnskipulega þýðingu slíkrar lagabreytingar. Við höfum gagnrýnt að ráðherra skuli heimilað að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir án samþykkis Alþingis, án samþykkis löggjafans og fjárveitingavaldsins. Við höfum tekið undir gagnrýni frá stéttarfélögunum um vistaskipti starfsmanna. Síðast en ekki síst, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) leggjumst við eindregið gegn ákvæði frumvarpsins um að samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna verði lögð niður og að forsætisráðherra verði þess í stað fært vald varðandi túlkun siðareglna (Forseti hringir.) eftir því sem til er leitað, eins og segir í frumvarpinu. (Forseti hringir.) Þess vegna er breytingartillagan við 1. gr. góð en frumvarpið er illt.