145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Skuldasöfnun ríkissjóðs vegna hrunsins var stöðvuð árið 2013 eins og áætlanir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur gerðu ráð fyrir. Þær aðgerðir sem þá var gripið til til að forða ríkissjóði frá gjaldþroti, ákvarðanir vinstri stjórnarinnar í framhaldi þess og fórnir fólksins í landinu hafa skilað góðum árangri. Allar súlur stigu eða hnigu í rétta átt frá árinu 2009.

Virðulegur forseti. Ég óska eftir því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hlýði á ræðu mína. (Gripið fram í: Hann gerir það.) (Fjmrh.: Ég er hérna.)

Afkoma ríkissjóðs fór stöðugt batnandi, kaupmáttur jókst og hagvöxtur varð umtalsverður. Atvinnuleysi minnkaði jafnt og þétt og vextir og verðbólga lækkuðu. Þessi þróun hefur sem betur fer haldið áfram. Við erum að njóta uppskerunnar, njóta árangurs erfiðisins.

Mér fannst því ónotalegt, herra forseti, að heyra hæstv. forsætisráðherra láta í stefnuræðu sinni eins og að allt gott í núverandi efnahagsumhverfi ætti rætur sínar í aðgerðum þeirrar ríkisstjórnar sem tók við stjórnartaumunum á árinu 2013. Hæstv. forsætisráðherra gerir með því ekki aðeins lítið úr því sem stjórnvöld aðhöfðust á síðasta kjörtímabili heldur lítilsvirðir hann einnig fólkið í landinu sem þurfti að leggja mikið á sig til að leggja grunn að þeim efnahagsbata sem við njótum nú. Spyrja má hvort hæstv. forsætisráðherra haldi virkilega að hann geti blekkt þjóðina með slíkum talsmáta.

Allar áætlanir vinstri stjórnarinnar í ríkisfjármálum gerðu þó ráð fyrir mun meiri afkomubata árið 2016 en raunin er í fjárlagafrumvarpinu sem við ræðum í dag, enda hefur hægri stjórnin fært fjármuni úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til efnamesta fólksins og fyrirtækjanna, eins og búast mátti við.

Það hryggir okkur jafnaðarmenn að það séu bara sumir sem fái að njóta efnahagsbatans og að stórir hópar fái ekki notið bættrar stöðu, einkum þeir sem minnst hafa handa á milli. Það svíður sannarlega undan því að horfa á stórar summur úr ríkissjóði renna til efnafólks á meðan þeir sem þurfa á þjónustu og stuðningi að halda fá lítið sem ekkert. Við í Samfylkingunni hefðum deilt afkomubatanum í samræmi við anda jafnaðarstefnunnar. Jöfnuður, jafnrétti og samhjálp eru grunngildi jafnaðarstefnunnar og eru einnig þau gildi sem mynda undirstöður velferðarkerfisins. Almannatryggingar, heilsugæsla, menntastefna, húsnæðismál og skattar eiga að mynda eina samofna heild sem stuðlar að hagsæld og farsælu mannlífi. Jafnaðarstefnan leggur áherslu á að þessi heildarmynd sé skýr og að allir hlutar hennar sinni vel því hlutverki að skapa réttlátt og gott samfélag fyrir alla.

Stoðir velferðarkerfisins gliðna nú þegar almannatryggingar ná ekki lágmarkslaunum, einstæðir foreldrar og öryrkjar eiga í fjárhagslegum erfiðleikum, æ fleiri börn búa við fátækt, greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðisþjónustu er of mikil, ungt fólk getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið eða leigt á eðlilegum kjörum, sköttum er létt af þeim efnameiri, fjöldatakmarkanir eru í framhaldsskólum og kostnaður vegna menntunar eykst. Við slíkar aðstæður geta jafnaðarmenn ekki setið hjá heldur verða að berjast fyrir breytingum. Það munum við gera, m.a. með breytingartillögum við vinnslu fjárlagafrumvarpsins á næstu vikum.

Lítum svo á velferðaráherslur hægri stjórnarinnar sem settar eru fram í fjárlagafrumvarpinu og í þeim fyrri sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram:

Lög um almannatryggingar gera ráð fyrir að bætur hækki með ákvörðun í fjárlögum miðað við vísitölu og almennar kjarabætur. Hægri stjórnin stærir sig af hækkun bóta og lætur að því liggja að um sérstakt góðverk sé að ræða en staðreyndin er sú að hún kemst ekki undan því að fara að lögum um almannatryggingar. Lagabókstafurinn ræður en ekki réttlætið sem kallar á að þeir sem þurfa að reiða sig á bætur fái sömu hækkanir og samið var um fyrir lægstu laun. Þrátt fyrir lagaákvæðin, sem reyndar voru samþykkt á Alþingi í þeim tilgangi að tryggja stöðu þeirra sem lifa á bótum, hlýtur það að vera skýlaus krafa að bætur almannatrygginga hækki í takt við lágmarkslaun þegar þau hækka hlutfallslega meira en aðrir launataxtar yfir sama tímabil, þ.e. að hækkun bóta verði frá 1. maí á þessu ári en ekki frá 1. janúar á árinu 2016 eins og hæstv. fjármálaráðherra lýsti yfir áðan.

Samfylkingin mun því leggja fram frumvarp sem gengur út á að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna í samræmi við kjarasamninga og verði 300 þús. kr. árið 2018. Greiðslurnar fari stighækkandi fram til 2018 með hliðstæðum hætti og lægstu laun samkvæmt kjarasamningum. Í nýgerðum kjarasamningum hefur verið lagt til grundvallar að 300 þús. kr. séu hæfileg lágmarkslaun af því að það sé sú fjárhæð sem sé launafólki nauðsynleg til mannsæmandi framfærslu. Hið sama hlýtur að gilda um aldraða og öryrkja sem reiða sig á lífeyri almannatrygginga til að sjá sér farborða. Ljóst er að stór hópur aldraðra og öryrkja býr við fátækt. Tæplega fjórðungur öryrkja býr við skort á efnislegum gæðum samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands frá júlí 2015 og öryrkjar eru sá hópur sem verst stendur þegar þátttakendur eru greindir eftir atvinnustöðu. Hækkun bóta almannatrygginga frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir er því afar mikilvæg og liður í því að draga úr þeim ójöfnuði sem leiðir af aðgerðum hægri stjórnarinnar.

Hvað heilbrigðisþjónustu varðar er rétt að minna á að þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda hér á landi greiða sjálfir yfir borðið samtals rúmlega 30 milljarða kr. á ári sem er hlutfallslega mun meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Heilbrigðiskerfið þarfnast styrkingar en ekki á kostnað sjúklinga.

Í fjárlagafrumvarpinu sé ég ekki að verið sé að styrkja heilbrigðiskerfið að neinu marki með nýjum verkefnum. Alvarlegt er þó að ekki sé gert ráð fyrir fjölgun sjúklinga, að einhverju marki er það að vísu gert varðandi lyfjakostnað en ekki á spítölum eða í heilsugæslu nema þegar horft er til sérgreinalækna. Í samningum við sérgreinalækna sem tóku gildi snemma árs 2014 er gert ráð fyrir að sjúklingum sem til þeirra leita fjölgi jafnt og þétt enda er þjóðin að eldast og líklegt að fjölgi í þeim hópi sem þarf á læknishjálp að halda. Kostnaðinn við samninginn áttu sjúklingar að bera en horfið er frá því nú og ríkið greiðir kostnaðinn samkvæmt tillögum í fjárlagafrumvarpinu. Ég þakka þessi sinnaskipti hægri stjórnarinnar ekki síst baráttu stjórnarandstöðunnar á síðasta þingi fyrir lægri greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Annað baráttumál stjórnarandstöðunnar var að auknum fjármunum yrði varið til viðhalds á Landspítalanum. Því eru það mikil vonbrigði að enn eitt árið ætli hæstv. ríkisstjórn að láta myglusvepp grassera þar og bjóða sjúklingum upp á að liggja á göngum spítalans eins og greint er frá á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Þessu verður að breyta.

Lausn vandans í heilbrigðiskerfinu felst fyrst og fremst í því að ríkið styrki raunverulega rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, geri þeim kleift að halda góðum mannauði og að mæta þörfum sjúklinga um land allt. Það á að vera forgangsverkefni.

Afleit menntastefna hægri stjórnarinnar leiddi af sér að aldurstengdar fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla tóku gildi um áramótin, en þá var fólki 25 ára og eldra vísað í bóknám í einkaskóla með ærnum tilkostnaði. Það verður til þess að færri munu afla sér menntunar sem er óhagstætt bæði fyrir einstaklinga og samfélagið. Það verður að snúa af þeirri braut og auðvelda aðgengi að námi hvar sem er á landinu, óháð aldri og efnahag nemenda. Það er bæði góð byggðastefna og menntastefna. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki vikið frá fyrri stefnu um fjöldatakmarkanir en svo virðist sem ekki sé áætlað fyrir breytingum á nemendafjölda í skólunum. Athuga þarf hvort um prentvillu sé að ræða hvað það varðar.

Eins og allir vita er afar slæmt ástand á húsnæðismarkaði og harðast kemur það niður á ungu fólki og leigjendum. Hæstv. húsnæðismálaráðherra boðar breytingar til batnaðar en þær hafa látið á sér standa. Meðal aðgerða sem grípa þarf til við lausn vandans eru nýjar húsnæðisbætur sem tryggja leigjendum sambærilegan stuðning og veittur er þeim sem búa í eigin húsnæði. Í frumvarpinu er lagt til að húsnæðisbætur verði 1,1 milljarður kr. sem dugir ekki til til að mæta vanda leigjenda. Og gleymum því ekki að 400 milljónum var lofað í húsnæðisbætur sem mótvægi við matarskattinn á þessu ári en þær hafa ekki skilað sér enn. Viðbótin í þessu frumvarpi er því ekki nema 700 millj. kr. Um fjórðungur heimila landsins er í leiguhúsnæði og það eru heimili sem virðast ekki eiga upp á pallborðið hjá hægri stjórninni. Það er sláandi að sjá hvað leigjendum er skammtað úr sameiginlegum sjóðum okkar og bera það saman við það sem þeir sem eiga húsnæði hafa fengið. 80 þús. millj. kr. runnu til þriðjungs heimila landsins vegna verðtryggðra húsnæðislána og stór hluti þeirrar fjárhæðar fór til heimila sem þurftu alls ekkert á þeirri peningagjöf úr ríkissjóði að halda. En leigjendur, sem eru um 25% heimila í landinu og oftar en ekki mjög tekjulág, eiga að skipta með sér 700 millj. kr. á árinu 2016. Óréttlætið í þessari misskiptingu er hrópandi.

Í frumvarpinu er lagt til að 1,5 milljarðar kr. fari til stofnstyrkja vegna 400 íbúða í félagslega kerfinu. Þá fjárhæð og þann fjölda íbúða hlýtur að verða að endurskoða því að vandinn kallar á enn fleiri íbúðir og þá um leið aukið fjármagn. En hvernig ætli upphæðin hafi verið ákveðin? Úr vasa skuldugra heimila eru á móti teknir 1,5 milljarðar kr. í stað þess að breyta viðmiðum þannig að fleiri heimili eigi kost á vaxtabótum.

Það þarf einnig að gera fólki sem kaupir íbúð eða búseturétt í fyrsta sinn og tekjulágu fólki kleift að fjármagna íbúðarkaupin. Við núverandi ástand má ekki una lengur og tillögur hæstv. húsnæðismálaráðherra til úrbóta, sem eru í raun aðeins 700 milljónir ef frá eru dregnar lækkun á vaxtabótum og mótvægisaðgerðir við matarskatti, duga engan veginn. Fögur orð hæstv. húsnæðismálaráðherra raungerast ekki í fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra. Það er athyglisvert.

Herra forseti. Í fjárlagafrumvarpinu eru útfærðar þær skattkerfisbreytingar sem boðaðar voru í ríkisfjármálaáætlun sem lögð var fram og samþykkt á vorþingi. Hægri stjórnin lofaði einfaldara skattkerfi og að því er unnið. Í því fólust sannarlega engin loforð um réttlátara skattkerfi enda höfðu fyrri aðgerðir hennar létt sköttum af ríkasta fólkinu í landinu og hækkað neysluskatt á matvæli svo dæmi séu tekin.

Skattar gegna ekki aðeins því hlutverki að afla ríkissjóði tekna heldur einnig því mikilvæga hlutverki að stuðla að jöfnuði í samfélaginu. Þrepaskiptur tekjuskattur skilar báðum hlutverkunum. Með tillögunum nú, þar sem þrepum er fækkað og viðmiðum breytt, er verið að draga úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins.

Samkvæmt skýringum með tillögunum í frumvarpinu munu þeir sem eru með 370 þús. kr. fá um 3 þús. kr. afslátt sem er svipað og þeir fá sem eru með 850 þús. kr. í mánaðarlaun eða meira. Mest fá þeir í afslátt sem eru með 700 þús. kr. í mánaðarlaun, 12 þús. kr., þegar breytingarnar hafa náð í gegn. Þeir sem eru með tekjur undir 240 þús. kr. mánaðarlaunum fá hins vegar engan afslátt. Þeir fá ekkert úr ríkissjóði. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að það sé vegna þess að fólk með svo lágar tekjur greiði ekki skatta sem renna til ríkisins heldur bara útsvar sem rennur til sveitarfélaganna. Ég spyr, herra forseti: Hvers konar hundalógík er þetta eiginlega? 5 milljarðar fara í þessa einföldun á skattkerfinu og þeir einir sem sannarlega þyrftu á auknu fjármagni að halda fá ekkert. Manni eins og Kára Stefánssyni, sem sjálfur hefur sagt að sanngjarnt væri að hann greiddi hærri skatta, er réttur þrjú þúsund kall á mánuði úr sameiginlegum sjóðum okkar allra en þeir sem minnst hafa fá ekkert.

Um skattkerfisbreytingar sagði hæstv. forsætisráðherra í stefnuræðu sinni, með leyfi forseta:

„Með því má áfram gera ráð fyrir að kjör allra batni, en þó sérstaklega millitekju- og láglaunafólks, og þannig batni lífskjör á Íslandi áfram en um leið aukist jöfnuður áfram.“

Getur verið, herra forseti, að hæstv. forsætisráðherra trúi því sjálfur að boðaðar skattkerfisbreytingar gagnist lágtekjufólki og auki jöfnuð? Hefur hæstv. forsætisráðherra kannski ekki lesið skýringarnar með fjárlagafrumvarpinu þar sem skýrt er tekið fram að þeir sem lægstar tekjur hafa fá ekkert?

Greiningar hafa sýnt að barnafjölskyldur eiga í einna mestum vandræðum með að ná endum saman og sum börn búa við fátækt og fara á mis við efnisleg gæði. Í velferðarsamfélögum Norðurlandanna er lögð mun meiri áherslu á stuðning við barnafólk en við höfum gert með öflugu barnabótakerfi. Góðar barnabætur jafna stöðu barnafólks en í tillögum í fjárlagafrumvarpinu hækkar heildarupphæð sem áætluð er í barnabætur á árinu 2016 ekki, hún lækkar þess í stað lítillega og viðmiðunartölur hækka aðeins um 3% en ekki samkvæmt verðbólguspám. Það er nauðsynlegt að setja upp dæmi þar sem bornar eru saman launatölur, breytingar á barnabótum og breytingar á vaxtabótum og meta áhrifin á hag heimilanna í landinu.

Herra forseti. Hjartað í stefnu Samfylkingarinnar er að almannatryggingar, heilsugæsla, menntastefna, húsnæðismál og skattar myndi eina samofna heild sem stuðlar að hagsæld og farsælu mannlífi. Við munum láta hjartað ráða við þinglega meðferð fjárlagafrumvarps ársins 2016.