145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði skilið það þannig að ákveðin hætta væri á að framkvæmdir stöðvuðust við Norðfjarðargöngin ef ekki yrði tryggt áframhaldandi fjárstreymi til verktakanna. Þess vegna orðaði ég þetta svona. Ég hef átt nokkur samskipti við innanríkisráðherra út af þessu máli og vil gera það sem við getum til að greiða verkefninu leið. Eftir atvikum kann að reyna á aðkomu þingsins í því. Við skulum sjá til.

Þetta er mikilvæg umræða varðandi það hvernig við nálgumst framkvæmdastigið. Þetta tengir inn á það, þegar við erum að ræða um sérstakt þingskjal um ríkisfjármálaáætlun til lengri tíma og eins um frumvarpið um opinber fjármál, hvort við getum tæmt umræðu fyrst um það hvert útgjaldastigið á að vera næstu árin og farið síðan þaðan yfir í umræðu um það hvernig við ætlum að forgangsraða útgjaldasvigrúminu sem við höfum ákveðið. Þá værum við að takast á um forgangsröðun. Ef búið væri að afgreiða hitt fyrst einblíndum við bara á forgangsröðun. Það er allt of algengt að í þingsal sé talað um einstök verkefni sem menn vilja sjá verða að veruleika án þess að nein grein sé gerð fyrir því hvort menn vilji þá hækka eða viðhalda útgjaldastiginu. Þar með finnst mér menn oft skauta fram hjá stórum álitamálum sem þeir verða að taka afstöðu til ef þeir ætla að bera ábyrgð á frumvarpi eins og því sem hér er undir í heild sinni.

Þetta með stórar framkvæmdir finnst mér til umhugsunar. Við horfum til dæmis til þess að Dýrafjarðargöng komi næst. Ég tel að það sé afar brýn framkvæmd og vil sjá hana verða að veruleika sem allra fyrst. Við hljótum samt að geta tekið grundvallarumræðuna um það hvort við ætlum okkur til framtíðar að vera viðstöðulaust í mjög dýrum gangaframkvæmdum (Forseti hringir.) eða hvort við getum inn á milli tekið okkar eitt ár eða kannski tvö í hlé og beint fjármagninu í aðrar samgöngubætur sem eru margar mjög brýnar, eins og hv. þingmaður bendir á. (Gripið fram í.)