145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

viðvera forsætisráðherra í fjárlagaumræðu.

[10:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Á þriðja degi nýs þings er málæðið byrjað hjá stjórnarandstöðunni. Hér koma fulltrúar stjórnarandstöðunnar upp og sýna áfram þá þráhyggju sem þessir ákveðnu þingmenn bera í brjósti gagnvart hæstv. forsætisráðherra. Þær reglur sem nú er unnið eftir í þinginu voru settar á síðasta þingi, síðasta kjörtímabili skulum við segja, eins og hæstv. forseti fór svo vel yfir. Sú ríkisstjórn sem sat þá var eftirminnilega kosin frá völdum og þær reglur sem þau voru sjálf aðilar að og samþykktu á síðasta kjörtímabili eiga ekki að gilda vegna þess að nú eru komnir nýir flokkar í ríkisstjórn.

Það er kvíðvænlegt fyrir landsmenn ef þetta er upptakturinn að nýju þingi, því að allir báru þá von í brjósti að við hefðum lært af síðasta kjörtímabili. (Forseti hringir.) Ég bið því þingmenn að hlífa öllum við málæðinu sem átti sér stað á síðasta þingi.