145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:57]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að víkja talinu að öðru, þ.e. framlögum Íslands til þróunarsamvinnu. Ég hef lýst því yfir opinberlega að ég er ekki sátt við okkar hlut í því máli. Ég tel að við Íslendingar sem ein af ríkustu þjóðum heims eigum að gera betur þegar kemur að þróunarsamvinnunni og einmitt núna þegar við sjáum þann flóttamannastraum sem liggur til Evrópu frá löndum í Norður-Afríku og víðar, þá kemur upp í hugann sú röksemd að ráðast þurfi á vandann í þeim löndum heiman að frá og heima við og það er akkúrat það sem við gerum með því að auka þróunarsamvinnu. Þar erum við komin með mjög góð rök fyrir því að reyna að koma í veg fyrir að slíkt upplausnarástand skapist eins og við erum að horfa á núna.

Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er mér sammála að einhverju leyti í þessum efnum en ég mundi vilja sjá það í þeim fjárlögum sem eru núna til umfjöllunar að við værum að bæta í þar og fram kæmi áætlun um hvernig við ætlum að standa jafnfætis öðrum þjóðum sem við miðum okkur við að öðru leyti á næstu árum þannig að maður gæti glaður horft fram á þá áætlun og hugsað með sér: Já, við Íslendingar erum að rétta úr kútnum efnahagslega og nú ætlum við að fara alla leið og standa jafnfætis öðrum þjóðum sem við miðum okkur við varðandi þróunarsamvinnu.

Eitt að lokum, ég hef svolitlar áhyggjur af norðurslóðamálum, að við séum ekki að nota nógu mikla fjármuni þar til að tryggja hagsmuni okkar. Ég vil enn fremur vekja athygli á því og spyrja ráðherra hvort hann hafi orðið þess var (Forseti hringir.) eða tekið þátt í samtölum um það hversu Rússar eru nú að auka gríðarlega hernaðaruppbyggingu sína á norðurslóðum á þeim svæðum sem tilheyra því landi.