145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:21]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta eru mörg frumvörp, það eru nokkur húsnæðisfrumvörp sem liggja undir og tvö þeirra varða húsnæðisbætur. Ef ég tala aðeins um það frumvarp er afar jákvætt að sjá þær umsagnir sem bárust í sumar um frumvarpið og sérstaklega frá Félagsstofnun stúdenta, ef ég fer rétt með, um að mikilvægt sé að þetta frumvarp nái fram að ganga því að það geti skipt miklu máli fyrir þá sem leigja á stúdentagörðum upp á lækkun á því sem þeir þurfa að borga í leigu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sammála mér í því að við þurfum að horfa á heildarmyndina þegar kemur að húsnæðismálum. Við þurfum að horfa í húsnæðisbætur, við þurfum að horfa í það að auka framboð á íbúðum, sem við gerum að hluta til í gegnum stofnstyrkina, við verðum að endurskoða byggingarreglugerð upp á að geta byggt hagkvæmar og ódýrar íbúðir og taka tillit til mikilvægra þátta sem þurfa að koma til. Við þurfum að vera með einhverjar skattaívilnanir fyrir þá sem eru að leigja íbúðir upp á lækkun jafnvel á leigugreiðslum, já eða frítekjumark. Þurfum við ekki að horfa í alla þá þætti til að ná árangri í því að lækka leiguverð? Eru það ekki stóru skrefin í því að við ætlum að hafa raunhæft val um búsetuform, um það hvort fólk vilji kaupa, leigja eða fara í húsnæðissamvinnufélög?