145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

fyrirhuguð sala Landsbankans.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða spurningu. Ég og fleiri vorum ekki alveg sáttir við það með hvaða hætti bankarnir voru yfirteknir á sínum tíma. Ég ætla ekki að verja löngum tíma í að rekja það hér heldur fyrst og fremst að minna á að bankarnir voru teknir yfir, eða Landsbankinn reyndar sérstaklega, fyrir lánsfé. Það var tekið lán til að yfirtaka þessa banka. Það ákvæði í fjárlögum sem hv. þingmaður vísar til er ekki nýtilkomið. Það er búið að vera í fjárlögum í líklega alla vega fimm eða sex ár, þ.e. frá því snemma á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar þar sem hv. þingmaður var ráðherra. Það ber ekki að skilja þetta sem svo að með þessu ákvæði sé verið að setja eitthvað nýtt inn í fjárlög sem síðasta ríkisstjórn hafi verið andvíg eða aðrir á þingi.

Hvað varðar hins vegar hugmyndir um að bankinn beiti sér með ákveðnum hætti og spurninguna um hvort rétt sé að framkvæma þá heimild sem legið hefur fyrir í fjárlögum árum saman þá hefur hæstv. fjármálaráðherra gert grein fyrir því mjög skilmerkilega að hann sé ekki þeirrar skoðunar að selja eigi allan hlut ríkisins í bankanum, þvert á móti telji hann æskilegt að ríkið eigi þar ráðandi hlut áfram um fyrirsjáanlega framtíð. Mat á því hvenær og hvernig rétt er að selja hlut í samræmi við heimild sem er í fjárlögum er svo matsatriði út frá aðstæðum hverju sinni.

Ég hef gagnrýnt það í nokkur skipti og á ýmsan hátt að mér hefur ekki þótt Landsbankinn sinna hlutverki sínu alveg eins og ég mundi vilja sjá hann sinna því sem banki í eigu almennings. Ég get nefnt hluti eins og áform um byggingu nýrra höfuðstöðva. Ég get nefnt það líka að mér hefur þótt að Landsbankinn hefði mátt vera meira leiðandi í að bæta þjónustu við viðskiptavini og gera það (Forseti hringir.) á betri kjörum og auk þess tel ég að það gæti verið tilraun til þess að hann yrði bakhjarl fyrir sparisjóðina.