145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

afgreiðslutími úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

[15:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér er alveg fyrirmunað að skilja eða fá nokkurn skapaðan hlut út úr þessu svari þrátt fyrir að ég hafi góðan vilja til þess. Það er ljóst að það á hvorki að setja fjármagn í þetta né kemur hæstv. ráðherra með neinar tillögur um það hvernig á að laga þetta þó að það segi í svari til mín 10. júní að til standi að vinna á þessu. Það er óásættanlegt að meðalafgreiðslutíminn hjá úrskurðarnefndinni sé 200 dagar. Alveg óháð því hvort það eru margar en sér í lagi ef það eru fáar fyrirspurnir get ég ekki skilið af hverju þetta tekur svona langan tíma. Ef það er ekki út af skorti á fjármunum óska ég eftir skýrum upplýsingum um það af hverju ráðherra telur að þetta taki svona gríðarlega langan tíma. Þegar fólk segir að málin séu of flókin er það alltaf einfaldlega af því að fólk veit ekki um hvað það er að tala. Ég vona svo sannarlega að það eigi ekki við í þessu tilfelli.