145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svar hans um krónutölugjöldin og 2,5% hækkunina. Ég spyr á móti: Er 2,5% heilög tala sem er föst eða mun hún breytast í takt við það að verðbólga hefur verið að fara á skrið? Þá á ég ekki við að hækkanir sem boðaðar hafa verið fyrir 2016 eigi að vera þannig að þær kyndi undir verðbólguna því að sannarlega á það ekki að vera þannig ekki frekar en að vaxtalágmark lífeyrissjóðanna geti kynt undir hærri vexti.

Hæstv. ráðherra svaraði mér með rafbílana, um þá tímabundnu lausn sem er framlenging á gömlu ákvæði um eitt ár. Það eru tvímælalaust kostir við það. Eins og ég sagði hér áðan þá samþykktum við hér í upphafi síðasta kjörtímabils áætlun um að gera samgöngukerfið umhverfisvænna, breyta þar um, skipta um orkugjafa og slíkt. Það er það sem er í gangi. Hæstv. fjármálaráðherra talar um að þessir bílar séu dýrari þannig að það fari meiri gjaldeyrir úr landi þegar verið er að kaupa þá en aðra bíla. Það kann að vera en það hlutfall er hins vegar að lækka mjög mikið um þessar mundir. Það eru farnir að koma inn í landið og eru framleiddir bílar sem eru miklu ódýrari en þeir voru í byrjun. Allar spár eru um það og þróunin með rafhlöðurnar er þannig að þessir bílar verða ódýrari og ódýrari. Ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar að rafmagnsbílarnir séu það sem koma skal hér á landi.

Hæstv. ráðherra nefndi dæmið sem ég hef oft nefnt hér í ræðustól, þ.e. hvernig eigi að greiða í Vegasjóð fyrir notkun á vegakerfinu af þessum bílum. Mitt svar er það sama og ég hafði þegar ég var samgönguráðherra: Það á að gera með því að breyta gjaldtökuaðferðinni sem verður þannig að allir bílar verða útbúnir ákveðnu tæki hvort (Forseti hringir.) sem það er GPS eða eitthvað annað þar sem greitt verður fyrir hvar menn keyra um og þannig í raun og veru bara lesið af.