145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:51]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Takk fyrir þessa umræðu, virðulegur forseti. Mig langaði aðeins að koma inn á það að oft hættir okkur til að beina sjónum okkar of mikið að tölum í þessari umræðu sem er auðvitað eðlilegt því að þetta fjallar allt um tekjur og þær eru byggðar á einhvers konar talnalegum útreikningi. Það þarf líka að huga að því að við séum að bjóða fólki upp á mannsæmandi líf og lífsgæði. Í því samhengi finnst mér við verða að fókusera meira á bæði atvinnulífið og stjórnvöld, við sem erum í því hlutverki sem við erum í á þingi, um það hvað fólk getur lagt til.

Ég held að við þurfum að ráðast í miklu betri skoðun á því hvernig við hugsum um fólk og getu þess til að taka þátt í samfélaginu. Allar leiðir sem við opnum, fyrir fólk til þess að gera eitthvað sem það upplifir sem eitthvað sem skilar sér í stærra samhengi og í stærri myndinni, skipta okkur höfuðmáli. Þess vegna held ég að við ættum að fókusera meira á það sem til dæmis kom fram í umræðum í síðustu viku. Ég get tekið undir með fyrrverandi samstarfskonu minni í velferðarráði Reykjavíkurborgar, Björk Vilhelmsdóttur — þó að ég sé ekki alltaf sammála því hvernig Björk nálgast hlutina er ég sammála henni í því að við eigum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Auðvitað er það engin sjálfshjálp að fá úthlutað frá hinu opinbera rétt rúmlega 70 þús. kr. til að hafa í sig og á eða eitthvað þaðan af meira.

Þess vegna vil ég að við reynum að beina sjónum okkar að virkni fólks og hvernig við getum fengið fólk til að taka þátt í samfélaginu á sem öflugasta hátt.

Ég tek líka undir það með hæstv. fjármálaráðherra að fjölgun aldraðra er eitthvað sem við þurfum að fara að horfa verulega (Forseti hringir.) alvarlegum augum á. Það gefur augaleið að samfélagið, eins og það er uppbyggt í dag, getur ekki staðið undir þessari fjölgun. Þar mætti til dæmis horfa til innspýtingar innflytjenda og flóttamanna frá öðrum löndum sem við þurfum vissulega á að halda.