145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú það sem við óbreyttir þingmenn höfum verið að reyna að lesa út úr þessu máli öllu saman. Við ræddum þetta í mars síðasta vor í tvo daga, síðan fór það til utanríkismálanefndar þar sem fjöldi gesta kom til að fara í gegnum málið. Allt sem kom fram í þeirri umræðu, bæði hér í þinginu og í utanríkismálanefnd, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá þeirri hv. nefnd, lýtur að því að ekki sé skynsamlegt að hrófla við því fyrirkomulagi sem er á þróunarsamvinnu Íslands og starfseminni sem hefur gengið svo mætavel hjá þeirri stofnun hingað til.

Ég er ekki sú sem get lesið í einhverja spádómskúlu um hvað fer fram í höfði hæstv. utanríkisráðherra, en ég hef þá tilfinningu að þetta lúti bæði að því að menn séu að bregðast við þeim mikla niðurskurði sem varð í utanríkisráðuneytinu, sérstaklega í fjárlögum 2013, að þá hafi þetta byrjað að velkjast svona á skrifborði hæstv. ráðherra. Ég vil ekki ætla hæstv. ráðherra það að hann ætli að fara að hafa pólitísk áhrif á þennan málaflokk með þeim hætti að draga hann svona nálægt sér og leyfa ekki stofnuninni að vinna á faglegum nótum, en það er aldrei að vita. Ég vil eiginlega ekki ætla honum það nema slíkt sé sannað.