145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég legg það ekki í vana minn að vera tortrygginn en sporin hræða, eins og allt of oft er sagt í þessari pontu. Ég velti fyrir mér og þá í sambandi við annan tilgang frumvarpsins — nú kemur fram í umsögn stofnunarinnar á síðasta þingi, sem hún sendi inn þegar málið var lagt fram þá, þ.e. aðallega það að leggja eigi niður stofnunina, sem stofnunin leggst eðlilega gegn, en ég fæ ekki betur séð en að eina ástæðan fyrir því að þetta er lagt fram sé sú að einn tiltekinn aðili, sérfræðingur sem vinnur hjá Rauða krossinum, hafi stungið upp á því. Fyrir utan það sé ég ekki að nein vandamál séu leyst.

Þá velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður er meðvitaður um eitthvað sem þó gæti verið til bóta við frumvarpið ef greinarnar sem varða niðurlagningu stofnunarinnar sjálfrar yrðu felldar út, það eru 2., 6., 7., 11. og 14. gr. samkvæmt stofnuninni sjálfri. Þekkir hv. þingmaður eitthvað í frumvarpinu sem væri hugsanlega til bóta?