145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef rakið afstöðu þess parts hinnar íslensku akademíu sem hefur látið sig þessi mál sérstaklega varða. Ég hef rakið hvernig Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur skýrt fyrir utanríkismálanefnd með afar greinargóðum og vel rökstuddum hætti af hverju hæstv. ráðherra er á rangri braut. En hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra leitaði ekki fanga þangað? Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði áðan að þetta hefði verið einn sérfræðingur, starfsmaður frá Rauða krossi Íslands. Það er rétt að rifja það upp að þegar sá starfsmaður skilaði skýrslu sinni, áfangaskýrslu, og ræddi hana fyrir utanríkismálanefnd þá var ekki að finna þar neina tillögu um að leggja stofnunina niður. Alls ekki. Það var ekki fyrr en eftir einhvers konar afskipti að tjaldabaki sem sú hugmynd kom fram í endanlegri gerð.

Það er rétt að það komi líka fram að sá ágæti starfsmaður skrifar sérstaka athugagrein, nota bene, þar sem hann vekur eftirtekt (Forseti hringir.) á því að hann sé starfsmaður Rauða krossins, (Forseti hringir.) hann hafi reynt að koma í veg fyrir að það hefði nokkur áhrif á niðurstöðuna, (Forseti hringir.) en hann biður lesandann að hafa það í farteskinu (Forseti hringir.) þegar hann fer yfir skýrsluna.