145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[12:10]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessa mikilvægu umræðu.

Í hjarta mínu trúi ég ekki á stofnanir í því ljósi að hrúga ákveðnu fólki saman sem við segjum svolítið að sé alveg eins, þar sem eigi annaðhvort að hæfa það, bæta það eða vernda með einhverjum hætti. Þar skapast alltaf ákveðið valdamisræmi sem ég held að sé sérstaklega hættulegt þar sem markmiðið með stofnanavistuninni er einhvers konar refsing eða frelsissvipting. Ég fagna því þess vegna að hæstv. innanríkisráðherra hafi nefnt það að við þyrftum að færa okkur meira út í það að vinna með föngum, afbrotamönnum, úti í samfélaginu.

Eftir sem áður sitjum við uppi með þá staðreynd að afbrotamenn eru auðvitað manneskjur. Það er alveg sama hver brotaferillinn er. Það er það sem við þurfum að nálgast, sama hvort okkur finnst það óþægilegt eða ekki. Þá þurfum við að gera það með stuðningi meðal annars fagfólks eins og sálfræðinga, náms- og starfsráðgjafa, félagsráðgjafa, iðju- og þroskaþjálfa til dæmis vegna þess að við sjáum það að fjöldi fanga er til dæmis með einhvers konar skerðingar, geðfatlanir, ADHD o.s.frv. Við þurfum því að nálgast þetta.

Jafnframt tel ég mjög mikilvægt að við vinnum með óhefðbundnum hætti, t.d. með jafningjahópum þar sem fólk sem hefur reynslu af afbrotum og er kannski komið á réttan stað aðstoðar aðra fanga sem núna eru að glíma við það að vera í fangelsi.

Svo finnst mér náttúrlega bara augljóst að betrun hlýtur alltaf að vera markmiðið fyrir fangann bæði þannig að hann geti axlað ábyrgð á því sem hann hefur gert en líka til þess að honum geti liðið betur og farið aðrar leiðir. Betrunin þarf líka að snúast um samfélagið. Ég held að ein af mikilvægustu leiðunum til að draga úr afbrotatíðni og koma í veg fyrir að fólk fari aftur og aftur í fangelsi sé að draga úr misrétti og draga úr jaðarsetningu. Við getum ekki horft fram hjá því og það er eitthvað sem mér finnst mjög mikilvægt að við leggjum áherslu á.