145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[12:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Við fengum málið til umfjöllunar í fjárlaganefnd og sendum niðurstöðu okkar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með töluvert mörgum athugasemdum. Ég hef ekki náð að lúslesa frumvarpið aftur til að skoða hvort miklar breytingar hafi verið gerðar á því. 2. gr. er um löggildingu og að viðkomandi þurfi að vera löggiltur endurskoðandi og megi ekki vera alþingismaður. Þá spyr ég: Hvers vegna ákvað forsætisnefnd að halda sig við það þrátt fyrir mjög ítarlega umsögn ríkisendurskoðanda sjálfs um að það væri ekki nauðsynlegt og að þeirra mati mætti gera ráð fyrir því að fólk með ólíka menntun og bakgrunn gæti uppfyllt hæfniskröfur sem dygðu til að sinna því starfi sem ríkisendurskoðandi vinnur? Hvergi annars staðar á Norðurlöndunum er þessi krafa gerð og í umsögn þeirra kemur fram að ríkisendurskoðendur Danmerkur og Noregs árita ríkisreikning þessara landa og meira að segja millistjórnendur. Ég spyr: Hvers vegna viljum við skera okkur úr hvað þetta varðar?

Hin spurningin varðar það hvernig ráðið er til starfans. Ekki er gert ráð fyrir því að auglýsa, heldur fyrst og fremst að þingið geti tilnefnt og forsætisnefnd tilnefni — talað er um að ekkert sé því til fyrirstöðu. En hvers vegna á ekki að auglýsa þetta starf eins og önnur opinber störf?