145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[12:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er ekki sammála nálguninni varðandi það að þrengja hópinn eins og hér er gert. Með því að velja það að hafa löggiltan endurskoðanda, sem er hvergi gert í Vestur-Evrópu, held ég, þrengjum við hópinn gríðarlega mikið á okkar litla landi. Samkvæmt mati stofnunarinnar sjálfrar er það algjörlega óþarft enda verkefnin og hlutverkið miklu víðtækara en bara það að setja nafnið sitt undir ríkisreikninginn þegar hann er tilbúinn. Ég er því ekki sammála því.

Ég skil sjónarmiðið varðandi það hvort auglýsa eigi eða ekki, ég hefði bara haldið að við vildum hafa stjórnsýsluna gegnsærri en hún er. Þingið hefur verið gagnrýnt fyrir að stjórnsýslan sé ekki nægilega opin, en hér er búið að þjappa þessu saman þegar verið er að tilnefna tiltekna fulltrúa, hver og einn þingmaður í forsætisnefnd getur gert það, í stað þess að þetta sé auglýst og birt öllum. Það er kannski munurinn fyrst og fremst, finnst mér.

Varðandi 3. mgr. 4. gr. er komið inn á að Alþingi greiði eitt A-hluta stofnana fyrir endurskoðun. Í frumvarpinu kemur fram að það sé eitthvert lítilræði, að kostnaðurinn sé um það bil vinna endurskoðanda í heila viku. Ég spyr nú samt hvort það þurfi að vera þannig þegar gert er ráð fyrir þessum framlögum til Ríkisendurskoðunar.

Varðandi ýmsar athugasemdir fjárlaganefndar sem lúta að opinberu fjármálunum sem við leggjum fram hér og ætlumst til að verði samþykktar er mjög margt sem skarast, alla vega í því frumvarpi sem var, á við frumvarp um opinber fjármál. (Forseti hringir.) Ég spyr hvort forsætisnefnd hafi ekki íhugað að breyta því.