145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[12:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt aðeins að fara yfir þær athugasemdir sem fjárlaganefnd gerði og byggjast að hluta til, eins og hér kom fram áðan, á þeim athugasemdum sem ríkisendurskoðandi gerði og mér finnst ástæða til að velta upp. Ég á von á því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komi með sínar athugasemdir. Það er áhugavert að sjá að þrátt fyrir að frumvarp um opinber fjármál sé ekki orðið að lögum hafi verið ákveðið að reyna ekki að aðlaga frumvarpið að því. Ég veit ekki hvort þeir kaflar sem við eiga verða skrifaðir upp á nýtt því að þarna eru töluverðar skaranir.

Fyrir það fyrsta bárust ábendingar um heitið, þ.e. ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Það eru auðvitað skiptar skoðanir á því hvort þetta eigi bara að heita frumvarp til laga um Ríkisendurskoðun. Í greinargerðinni hér kemur fram að þetta sé látið heita ríkisendurskoðandi vegna þess að hann starfar á vegum Alþingis og er trúnaðarmaður þess við endurskoðun. Það er líklega verið að setja þetta, eins og hér kom fram hjá hv. þingmanni, í svipað mót og umboðsmann Alþingis með því að persónugera þetta við ríkisendurskoðanda sem slíkan. Gott og vel, það er ákvörðun sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fær að ræða ef henni þykir það skipta máli.

Síðan höfum við í fjárlaganefnd gert athugasemdir við opinberu fjármálin. Það liggur til dæmis ekki fyrir hvort Ríkisendurskoðun á að endurskoða framsetningu ríkisreiknings samkvæmt hagskýrslustaðli GFS. Eins og frumvarpið um opinber fjármál lítur út í dag þá á að endurskoða bæði fjárlög og ríkisreikning samkvæmt þeim staðli.

Eins og ég kom inn á í andsvarinu áðan þá lagði fjárlaganefnd til að starfið yrði auglýst en ekki tilnefnt í það til að hæfustu umsækjendur gætu sótt um og embættið stæði öllum til boða sem uppfylltu tiltekin skilyrði og Alþingi mundi síðan tryggja faglega úrvinnslu umsóknanna.

Við 3. gr. lagði fjárlaganefnd til hvort það ætti að breyta 2. málsgrein. Í stað þess að ríkisendurskoðandi gerði tillögur að úrbótum, skipulegði bætta stjórnsýslu eða hvað þá mundi hann leggja til að gerðar yrðu úrbætur. Það getur skipt máli hvaða orðfæri við notum í þessu þar sem Ríkisendurskoðun á kannski erfitt með að leggja fram fullmótaðar tillögur um hvernig rekstrinum skuli háttað því að þá gæti stofnunin orðið hluti af framkvæmdarvaldinu og sett sig í erfiða stöðu þegar kemur að því að endurskoða málið hlutlaust öðru sinni eða eitthvað slíkt. Það þarf að fara varlega í tillögugerð við að skýra ábyrgð. Greinin felur í sér tillögu um að stofnunin hanni nýtt skipurit fyrir þann aðila sem til skoðunar er. Það er svo rakið nánar í umsögn fjárlaganefndar.

Varðandi g-lið 1. mgr 4. gr. ætla ég að lesa upp úr umsögn fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Um þetta segir í athugasemdum um 4. gr.: „Í g-lið 1. mgr. er loks tekið fram að starfssvið ríkisendurskoðanda taki einnig til þess að hafa eftirlit með starfsemi og árangri ríkisaðila, en þar er vísað til stjórnsýsluendurskoðunar, samanber 6. gr. frumvarpsins. Rétt þykir að taka þetta atriði sérstaklega fram í greininni.“ Í 4. tölulið 8. gr. gildandi laga um Ríkisendurskoðun kemur fram að eitt af markmiðum fjárhagsendurskoðunar er: „Að kanna og votta áreiðanleika kennitalna um umsvif og árangur af starfsemi stofnana birtist þær með ársreikningi.“ Í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins segir um kennitölurnar: „Ekki er þörf á að tilgreina slíkt sérstaklega í lögum. Þó ber að hafa í huga að slíkar kennitölur eru almennt ekki af sama meiði og kennitölur um fjárhagslegan árangur af atvinnurekstri á einkamarkaði, samanber enn fremur umfjöllun um 21. gr. frumvarpsins.““

Fjárlaganefnd vísar til þessa frumvarps um opinber fjármál þar sem mikil áhersla er lögð á að mæla árangur á starfsemi ríkisins og telur mikilvægt að allar stofnanir setji sér árlega mælanleg markmið til að meta árangur og gæði starfseminnar. Til þess að hægt sé að tryggja sem árangursríkasta markmiðssetningu og árangursmælikvarða þá telur fjárlaganefnd mikilvægt að óháðir sérfræðingar bregði reglulega máli á þessa mælikvarða og meti gæði þeirra og um leið árangurinn af starfsemi ríkisins.

„Í ljósi þess að stjórnsýsluendurskoðun nær til tiltölulega fárra verkefna ár hvert miðað við fjárhagsendurskoðun má spyrja hvort ekki þurfi að taka umfjöllunina í athugasemdinni til endurskoðunar. Ef mælikvarðar eru ekki settir, með hvaða hætti vill Alþingi að stjórnendur gangi úr skugga um hvort regluleg starfsemi ríkisstofnana sé markviss og árangursrík? Erfiðara er fyrir Alþingi og aðra að meta árangur ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja ef þau birta sjálf ekki neina árangursmælikvarða.“

Ég fór hér áðan í andsvari yfir þann kostnað sem af þessu hlýst fyrir Alþingi, þ.e. af endurskoðuninni, og ætla ekki að fara yfir það aftur en mig langar til að fara yfir 7. gr. sem fjallar um faglegt starf Ríkisendurskoðunar. Hún hefur færi á að fela aðilum utan stofnunarinnar í ríkum mæli að endurskoða þau verkefni sem eru mest krefjandi út frá reikningum og skoðunarstöðlum. Ef flóknustu verkefnin eru unnin hjá öðrum aðilum er kannski vafi á því hvort eins mikil þekking yrði á því umhverfi eins og ef stofnunin annaðist sjálf verkið. Fjárlaganefnd taldi að það vantaði inn í frumvarpið skýr ákvæði um að aðilum sem falin væru endurskoðun eða sérfræðiverkefni í umboði Ríkisendurskoðunar bæri að veita eftirlitsnefndum þingsins upplýsingar sem þær óskuðu eftir án endurgjalds. Það er afar mikilvægt að ekki hljótist viðbótarkostnaður af þessu og að við fáum hingað inn í þingið upplýsingar þrátt fyrir að verkefnunum sé útvistað.

Varðandi 10. gr. þarf að skýra betur hvað felst í heimildum Ríkisendurskoðunar til að geta skoðað reikningsskil sveitarfélaga og stofnana og félaga sem ríkissjóður á hlut í. Það er eins og þetta veigaminni heimild til endurskoðunar sem er að mati fjárlaganefndar ekki nægjanleg í ljósi þess að við erum að tala um almannafé.

Við 12. gr. beindi fjárlaganefnd því til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar — ég sé að þar er fulltrúi sem ætlar tala hér á eftir mér og það er áhugavert að vita hvort þetta komi til tals því að ég er ekki með nefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um málið — að kanna þyrfti gaumgæfilega hvort ákvæði greinarinnar gengju skemmra en ásættanlegt er fyrir eftirlitsnefndir Alþingis, þ.e. hvort ríkisendurskoðanda ætti að vera skylt að afhenda fjárlaganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd allar upplýsingar sem þær óskuðu eftir og hvort eftirlitsnefndir þingsins gætu unnið starf sitt hefðu þær ekki aðgang að öllum fjárhagsupplýsingum um starfsemi ríkisins og upplýsingum sem unnið hefur verið úr af sérfræðingum Ríkisendurskoðunar.

Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég að fara hér í 1. mgr. 17. gr. sem gengur út á að ríkisendurskoðanda beri að veita þingnefndum upplýsingar þegar eftir því er óskað af forsætisnefnd Alþingis. Fjárlaganefnd telur að það þurfi að breyta því þannig að það sé ekki bara forsætisnefnd sem geti gert það. Ef þetta eigi að vera svona þá skuli liggja fyrir með hvaða hætti sé hægt að bregðast við þegar þingnefndir þarfnast mikilvægra sérfræðiupplýsinga sem stofnunin hefur hingað til útvegað nefndum en ákveðið á grundvelli sjálfstæðis síns að veita ekki. Ríkisendurskoðun hefur sem sagt sjálf haft ákvörðunarréttinn sem sjálfstæð stofnun eins 17. gr. var. Ég er ekki búin að lúslesa frumvarpið aftur þannig að ég veit ekki hvort breyting hefur átt sér stað varðandi þetta. Það er kannski ágætt að taka það til umræðu þegar þetta fer í nefnd.

Varðandi 19. gr. var fjárlaganefnd ósammála því að launakjör ríkisendurskoðanda skyldu ákveðin af kjararáði, þ.e. að þau tækju mið af launum hæstaréttadómara, og lagði til að ríkisendurskoðandi hefði ekki rétt til biðlauna. Þá er einnig bent á að ekki er getið um tímamörk biðlauna í frumvarpinu. Nefndin lagði líka til að 2. málsliður 2. málsgreinar félli niður þar sem það væri ríkisendurskoðanda að ráða sér staðgengil ef að hann kysi svo. Einnig lagði nefndin til að 3. málsliður félli niður þar sem forsætisnefnd ætti ekki að staðfesta ráðningu annars starfsfólks Ríkisendurskoðunar. Nú má vera að því hafi verið breytt. Eins og ég sagði þá hef ég ekki náð að fara yfir það þar sem þetta kom aðeins fyrr á dagskrá en ég gerði ráð fyrir.

Varðandi 20. gr. þá velti fjárlaganefnd því upp hvort rétt væri að geta í lagatexta heimilda sem Ríkisendurskoðun hefur til að vera aðili að alþjóðasamtökum ríkisendurskoðenda og öðrum samtökum. Í öðru lagi hvort Ríkisendurskoðun ætti fremur að vera skylt en ekki einungis heimilt að innleiða alþjóðlega samþykkta endurskoðunarstaðla. Þetta er líka mikilvægt í ljósi frumvarpsins um opinber fjármál. Nefndin taldi að það þyrfti líka að meta hvort og þá með hvaða hætti Ríkisendurskoðun innleiddi þessa alþjóðlegu gæðastaðla um endurskoðun og aðra starfsemi stofnunarinnar.

Að lokum, virðulegi forseti, við 21. gr. beindi fjárlaganefnd því til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að kanna vel hvað fælist í því að lög um endurskoðendur tækju ekki til Ríkisendurskoðunar því að ákvæðin taka til þeirra starfsmanna Ríkisendurskoðunar sem annast tiltekna endurskoðun. Einnig þarf að meta greinina vel verði tillaga fjárlaganefndar um að ríkisendurskoðandi þurfi ekki að vera löggiltur endurskoðandi að veruleika.

Virðulegi forseti. Þetta var nú bara rétt til þess að fara yfir þetta frumvarp því að það er mjög mikilvægt. Þetta er afar mikilvæg stofnun sem skiptir Alþingi miklu máli og þess vegna þarf umgjörðin að vera í lagi, sérstaklega þarf hún að taka mið af þeim lögum sem verið er að smíða. Mér finnst það óþarflega mikil endurvinnsla ef lagt er fram frumvarp sem þarf að breyta töluvert mikið í ljósi þess að ég geri ráð fyrir að ný lög um opinber fjármál verði samþykkt. Hefði ekki verið skynsamlegra að laga það að því eins og hægt væri þó að vissulega gæti það líka átt eftir að taka breytingum, sem ég geri þó ekki ráð fyrir að verði miklar héðan af? Ég er nokkuð viss um að hugmyndir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi ekki náð fram að ganga þar sem frumvarpið er lagt fram nánast óbreytt. Nefndin tekur þá til umfjöllunar þær athugasemdir sem ég hef nú rakið og komu frá fjárlaganefnd þegar málið kom hér síðast fram.