145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks.

9. mál
[14:36]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Bjartrar framtíðar og Pírata, liðlega 20 þingmanna alls, hygg ég, en 1. flutningsmaður málsins er hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sem getur því miður ekki verið með okkur í dag til að fylgja málinu úr hlaði sökum veikinda. Hún bað mig þess vegna um að mæla fyrir málinu í fjarveru sinni til að hún mundi ekki með nokkrum hætti að tefja fyrir framgangi málsins. Ég hygg að það sé það sem flutningsmenn eiga fyrst og fremst sameiginlegt og markmiðið með tillöguflutningnum er auðvitað fyrst og fremst að kalla eftir því að við tvínónum ekki við að taka stórar ákvarðanir um ábyrgð okkar og skyldur í móttöku flóttamanna á þessum fordæmalausu tímum. Hæstv. innanríkisráðherra sagði hér í morgun að það væri kannski ekki rétt að kalla þetta flóttamannavanda heldur væri nær að tala hér um þjóðflutninga í ljósi þess gríðarlega fjölda sem nú er á flótta í Evrópu og raunar um heim allan.

Hér er gert ráð fyrir að við tökum tafarlaust þá ákvörðun að hér verði boðin vist fyrir kvótaflóttamenn í samráði við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, 500 talsins á næstu þremur árum, 100 nú þegar á þessu ári og síðan boðin dvöl fyrir 200 á næsta ári og 200 árið þar á eftir, sem okkar hlut í því að takast á við þennan vanda. Auðvitað er það aðeins hluti þeirra aðgerða sem við þurfum að taka þátt í en í nokkuð góðu samræmi við það sem aðrar þjóðir ákveða hér í kringum okkur. Í morgun ákvað Evrópuþingið að taka við 120 þúsund manns. Norðmenn hafa ákveðið að taka við 8.000 manns til viðbótar við það sem þeir höfðu þegar ákveðið og hér hafa fjölmargar þjóðir tekið stórar ákvarðanir um að leggja sitt af mörkum. Auðvitað munu 500 manns ekki ríða baggamuninn í þeim gríðarlega vanda sem við er að etja og eflaust má nefna ýmsar tölur, bæði hærri og lægri um það sem rétt væri að taka á móti, en ég hygg að það sé nokkuð óumdeilt, a.m.k. af hálfu þeirra sem vinna við þessi mál, að við eigum að geta tekið vel á móti flóttamönnum í hundraðatali.

Þegar við nú vitum það er í sjálfu sér ekki eftir neinu að bíða. Það þarf ekki að skipa fleiri nefndir eða halda fleiri fundi. Við getum einfaldlega tekið ákvörðun um að taka við flóttamönnum í hundraðatali og bregðast við núna því að þetta eru algerlega fordæmalausar aðstæður.

Á síðasta ári einu jókst sá fjöldi flóttamanna sem Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna þurfti að hafa afskipti af, úr liðlega 40 milljónum í 50 milljónir — á einu einasta ári. Flóttamönnum fjölgaði um 13 milljónir á 12 mánuðum, meira en 1 milljón manna í hverjum einasta mánuði allt síðasta ár, fleira fólk á hverjum einasta degi missti en býr í næststærstu bæjum landsins, bæjum eins og Akureyri, Hafnarfirði eða Kópavogi, heimili sín og var á vergangi á hverjum einasta degi, þannig að vandinn er gríðarlegur, hann er aðkallandi og hann er núna. Það er hátt í það að vera íbúafjöldi Íslands, íslenska þjóðin í heild sinni, sem flýr yfir Miðjarðarhafið á hverju ári.

Þess vegna kalla flutningsmenn þessarar tillögu eftir því að við tökum ákvörðun í samvinnu við Flóttamannahjálpina — sem hefur auðvitað víðtæka reynslu af þessum verkefnum í samstarfi við þær stofnanir hér innan lands sem búa yfir þekkingu til að taka á móti flóttamönnum í samvinnu við aðra góða aðila — en setjum um leið af stað vinnu við að hér sé ekki bara til skammtímaáætlun eins og þessi heldur sé til áætlun sem verði unnin og lögð fram í þinginu og gildi frá árinu 2018 og eftirleiðis sem tryggi það að við tökum við flóttamönnum í samræmi við fjölda okkar og efnahagslegan styrk. Sú vinna fari fram samhliða þessu. Auk móttöku þessara kvótaflóttamanna leggjum við áherslu á að greiða fyrir fjölskyldusameiningum þeirra Sýrlendinga sem þegar eru hér með því að auka verulega heimildir til þess að stuðla að fjölskyldusameiningum og gefa ættmennum þeirra kost á því að koma hingað og einnig að í þessari vinnu allri verði haldið til haga þeim áherslum sem Ísland hefur haft í starfi með flóttamönnum. Við leggjum mikið upp úr því að þar sé hugað að hópum sem hafa sérstöðu og sem gæta þarf að sérstaklega, t.d. hópum kvenna sem höllum fæti standa, svo sem einstæðum mæðrum, hinsegin fólki og öðrum hópum sem geta í löndum sínum eða heimshluta átt á brattann að sækja sökum fordóma eða skorts á mannréttindum umfram það sem þegar í því felst að vera flóttamenn.

Við höfum rætt málefni flóttamanna ítrekað hér, bæði í vor og einnig nú á haustinu. Ég hygg að mikill samhljómur sé í öllum stjórnmálaflokkum hér á Alþingi um að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða. Við fögnum því að ríkisstjórnin boðar að hún hyggist taka einhverjar ákvarðanir á morgun. Við vonum að þessi tillöguflutningur hafi verið hluti af þeim þrýstingi sem mikilvægt var að hafa uppi á því að menn kæmu þegar fram með úrlausnir. Ég vænti þess að þær tillögur séu í þeim anda sem er að finna í þessari þingsályktunartillögu í því umfangi sem gert er ráð fyrir, 500 flóttamenn strax og síðan áætlun til lengri tíma um það hvernig við ætlum að standa við okkar hlut í þessum málum. Kannski verður þingsályktunartillagan óþörf eftir ríkisstjórnarfundinn á morgun, en þangað til er full ástæða til að málið fái hér góða umræðu í dag en gangi síðan þegar til nefndar og að nefndin sé ekki að tvínóna við þetta verkefni heldur vindi bráðan bug að því að fá gesti að málinu og afgreiði það þegar í stað aftur hingað inn í þingsal svo ljúka megi ákvarðanatöku í málinu. Fyrir okkur í þessum sal er ekki eftir neinu að bíða en fyrir fólkið sem er á flótta er eftir miklu að bíða.