145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[15:59]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna samþykkt ríkisstjórnarinnar um að leggja til við Alþingi að 2 milljörðum kr. verði varið í aðstoð við flóttafólk á næstu tveimur árum og ég styð heils hugar nálgun ráðherranefndarinnar á málið. En um leið legg ég áherslu á að horft verði mjög vítt á það með hvaða hætti stuðningur okkur Íslendinga nýtist sem best eins og margir hv. þingmenn hafa komið inn á hér í umræðunni. Við teljum mikilvægt að samhliða móttöku flóttamanna hér heima verði stutt vel við starf Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í löndunum í kringum Sýrland, Rauða krossinn og fleiri aðila.

Það er mjög mikilvægt að líta á verkefnið sem langtímaverkefni sem við vinnum jafnt og þétt. Gerum betur en undanfarna áratugi og tökum reglulega á móti hópum flóttamanna, byggjum upp og viðhöldum þekkingu á móttöku og þjónustu við flóttamenn um allt samfélagið. Það er mikilvægt á þessum tímapunkti að samræma þjónustu við þá sem fá hér dvalarleyfi í kjölfar hælisumsóknar og þá sem koma hingað sem kvótaflóttamenn þannig að þeir fái, eins og kostur er, sambærilegan stuðning við að hefja hér nýtt líf. Um þessa vinnu þarf samstarf við sveitarfélögin og í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að á síðustu árum hefur orðið til mikil þekking hjá sveitarfélögunum við móttöku fólks frá ólíkum menningarsvæðum. Þar held ég að sé líka lykillinn að því að skapa almenna sátt um verkefnið. Þá þurfum við að vanda okkur við þessa móttöku og gera sem flestum kleift að taka þátt í að styðja við þá flóttamenn sem hingað koma, hvort sem er í gegnum sjálfboðastarf eða það starf sem vinna þarf í sveitarfélögunum.