145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það eru fjölmargir fletir á þessu máli sem eru að angra mig eins og hv. þingmann. Einn af þeim er það að ég átta mig ekki alveg á því hvaða stefnu menn eru að fylgja þegar þeir ákveða að taka eina fagstofnun inn í ráðuneyti. Það má líkja þessu við það að í atvinnuvegaráðuneytinu dytti mönnum í hug að ná aðeins betri stjórn á ferðaþjónustu og tækju þá Ferðamálastofu bara undir ráðuneytið; og hinar og þessar stofnanir mætti nefna í því sambandi. Þetta er það sama sem hér er í gangi án þess samt að það sé rökstutt hvernig það styrki málaflokkinn faglega.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi áttað sig á því, hvort hún hafi rekist á það, að menn séu að rökstyðja málið út frá þessum faglegu sjónarmiðum.

Þróunarsamvinna, þetta er sérgrein. Það er gríðarlega snúið að fara inn í ríki með slíka aðstoð, umrædd svæði geta verið með flókna samfélagsgerð og ólíka því sem við, sem veitum aðstoðina, þekkjum. Það þarf því að vanda sig vel þegar komið er inn í samfélög með mikla þróunaraðstoð. Þetta eru gríðarlega mikil fræði og miklar stúdíur að baki. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hvort þetta geti ekki haft áhrif á okkar faglegu nálgun. Ég sé ekki betur, ef maður skannar þessa DAC-skýrslu, sem var gerð um Ísland og íslenska þróunarsamvinnu þegar við gengum inn, en að starfi Þróunarsamvinnustofnunar sé hrósað sérstaklega út frá faglegum sjónarmiðum og talið að stofnunin hafi safnað mikilli þekkingu og mikilvægri í störfum sínum í gegnum tíðina.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að þessu, mig grunar að þetta snúist nú helst um sparnað og að menn séu ekki mikið að velta fyrir sér faglegu þáttunum.