145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna. Það eru kannski aðallega tveir punktar sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í. Í fyrsta lagi lýtur það að greinargerð málsins, þ.e. þeim hluta þar sem talað er um að ein helstu rökin fyrir þessari tillögu hæstv. ráðherra séu þau að mikilvægt sé að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tali þá einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.

Ég verð að segja það, forseti, að ég hjó sérstaklega eftir þessu í málinu eins og það var lagt fram fyrir ári. Þá var töluverð umræða um það í þingsal að þetta væri óboðleg framsetning á þingmáli frá ráðherra, þ.e. að leyfa sér að leggja fram texta sem inniheldur dylgjur um stofnun. Ég leyfði mér satt að segja að vona að með því að leggja málið fram í hið annað sinn þá hefði ráðherrann a.m.k. látið svo lítið að fara yfir það með sannfærandi hætti og styðja með haldbærum rökum sitt mál. En þá fáum við bara stafrétta endurtekningu á þessum texta sem ég vitnaði í áðan og til viðbótar segir: „Með breytingunum næst betri heildarsýn á málaflokkinn og betur verður tryggt að stefnu Íslands í málaflokknum sé framfylgt.“

Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta. Bara þetta eitt og sér finnst mér benda til þess að hér séu í raun og veru um að ræða gervirökstuðning og sýndarrök í máli sem virðist vera eina mál hæstv. utanríkisráðherra á þessu þingi. Mér finnst það raunalegt (Forseti hringir.) að ráðherra skuli þurfa að rökstyðja sig með þessum hætti.