145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Kjarni þessa máls var líkast til fólginn í þeim síðustu setningum sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði hérna áðan. Hann lýsti því yfir sem sinni skoðun að það ætti ekki að breyta hlutum sem væru í góðu lagi. Það hefur komið fram ákaflega vel í þessari umræðu að það sem mér hefur mistekist að gera, það sem hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni hefur mistekist að sýna fram á, og það sem fyrst og fremst hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki tekist að gera í þessari umræðu, er að sýna hver þau vandamál eru sem sú skipulagsbreyting sem hér er lögð til á að leysa. Ég hef í gegnum áranna rás tekið margoft þátt í því að breyta um skipulag stofnana, færa þær, leggja þær saman, breyta verkefnum þeirra, skipta um strúktúr og skipulag hjá þeim, en það hefur alltaf haft ákveðið andlag. Andlagið hefur verið einhvers konar úttekt þar sem menn á faglegum grunni hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri viðkomandi stofnun eða málaflokki fyrir bestu að gera breytinguna sem verið er að ráðast í.

Hið sérkennilega við þá breytingu sem hér er lögð til af hæstv. ráðherra er að það hefur ekki nokkur maður getað sýnt fram á þörfina á breytingunni. Andspænis því hafa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og einn hv. þingmaður ríkisstjórnarinnar, Vilhjálmur Bjarnason, lagt til að menn staldri aðeins við í sporinu, bíði eftir því að sú jafningjarýni sem hefur verið boðuð af hálfu þróunarsamvinnunefndar OECD á fyrirkomulagi þróunarsamvinnu á Íslandi, verði til lykta leidd.

Þá get ég gefið hæstv. ráðherra eitt loforð. Ef það er niðurstaða jafningjastofnana, jafningaþjóða, að þörf sé á því að breyta strúktúrnum sem er núna á þróunarsamvinnu þá skal ég láta af minni andstöðu við þetta mál. Ég hlusta á þá sem fara með rök og geta bent á ástæður fyrir því að menn eigi að grípa til tiltekinna aðgerða. En hæstv. ráðherra hefur ekki tekist það.

Í fyrsta lagi hefur honum ekki tekist að sýna neitt dæmi um að einhvers konar skörun sé millum stefnumótunar af hálfu utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar.

Í öðru lagi hefur honum heldur ekki tekist að sýna fram á eitt einasta dæmi þar sem Þróunarsamvinnustofnun hefur með einhverjum hætti talað annarri röddu en utanríkisráðuneytið. Eina dæmið sem hefur verið fært til þessarar rökræðu er það sem ég nefndi varðandi Úganda og afstöðu sem þurfti þar að koma á framfæri. ÞSSÍ hafði tiltekna skoðun varðandi mátann sem átti að tjá þessa skoðun, utanríkisráðuneytið aðra. Það var farið að leið utanríkisráðuneytisins. Með öðrum orðum, þetta er ekki dæmi sem hægt er að taka um einhvers konar ágreining og jafnvel þó að eitt dæmi væri til þá réttlætir það ekki þessa meðferð. Það er alveg sama hvar drepið er niður. Það er ekki hægt að setja krók í kjöt á neinni af þeim röksemdum sem hafa verið fluttar fyrir málinu.

Það sem meira er, þetta er gert að tillögu sem kemur fram í skýrslu sem einn maður, starfsmaður Rauða kross Íslands, gerði. Fín skýrsla að mörgu leyti. Meðal annars dregur hún það algjörlega skýrt fram hversu gott samstarf er á milli ÞSSÍ og ráðuneytisins. En það hefði kannski verið þörf á því við þessar aðstæður þegar verið er að hræra í potti þar sem er um að ræða stofnun sem fer með gríðarlegt fé að menn mundu kannski leita ráða hjá fleiri en einum einstaklingi. Hvað með það fræðilega atgervi sem við búum við á þessu sviði? Við vitum að við Háskóla Íslands er að finna fræðimenn sem eru nafnkunnir fyrir greiningar sínar og störf sín á þessu sviði. Hefði ekki verið viturlegt að hlusta á þau? Hvert er ráð þeirra? Það er tvíþætt. Í fyrsta lagi alls ekki að leggja niður ÞSSÍ. Í öðru lagi, ef það á að gera breytingar á stofnuninni þá er besta breytingin sem þau sjá að færa öll verkefni sem utanríkisráðuneytið sjálft vinnur á sviði þróunarsamvinnu yfir til stofnunarinnar. Þetta er mergurinn málsins. (Forseti hringir.)

Hæstv. ráðherra fer gegn öllu því sem liggur fyrir og röklegt má telja í málum. Þetta eru duttlungar hans sjálfs og ekkert annað. (Forseti hringir.) Það er það sem veldur mér ugg um stjórnsýsluna sem að baki liggur.