145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum enn þetta stóra mál sem hæstv. utanríkisráðherra hefur komið með til okkar aftur frá því í vor þegar var til umræðu að færa Þróunarsamvinnustofnun inn í utanríkisráðuneytið. Ég vil í því sambandi rifja upp að í mars 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnuáætlun 2013–2016, unna af utanríkisráðuneytinu sem málaflokkurinn heyrir undir. Í henni er stefnt að því að hlutdeild Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í útgjöldum til þróunarmála verði 40% á meðan afgangnum er ráðstafað fyrst og fremst til alþjóðastofnana. Nú eru þær fyrirætlanir breyttar að því leyti að nú stendur til að leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður og færa hana inn í utanríkisráðuneytið.

Ráðherra hefur í umfjöllun um þetta — hann hefur nú ekki tjáð sig hér í þessari umræðu heldur einungis mælt fyrir málinu — sagt að það verði ekki stefnubreyting. Frumvarpið hefur mætt mjög mikilli andstöðu innan þingsins og líka þeirra sem til málaflokksins þekkja og hefur gagnrýni komið innan úr stofnuninni sjálfri. Þó að starfsmenn hafi kannski ekki treyst sér til að stíga fram hver og einn til þess að gagnrýna er mikil óánægja með þetta á þeim vígstöðvum.

Menn hafa horft til þess hvert eftirlitið verði þegar þessi málaflokkur verður kominn á sömu hendi. Það hefur líka verið undirstrikað rækilega að stofnunin hefur staðið sig mjög vel og Ríkisendurskoðun og fyrri úttektir DAC, nefndar innan Þróunarsamvinnustofnunar OECD, hafa gefið stofnuninni góða einkunn. Hæstv. ráðherra talar um að mikil samlegðaráhrif verði og betri nýting þegar málaflokkurinn verður kominn inn í ráðuneytið. Menn óttast að þar hafi menn fyrst og fremst verið að sækja í það fjármagn sem þarna er undir í svelt ráðuneyti, sérstaklega í fjárlögum 2013 þar sem ráðuneytið kom mjög illa út úr fjárlögum.

Ekki er hægt að leyna því að óánægja er meðal starfsmanna stofnunarinnar um þessar tillögur. Þær þykja, ekki bara hjá þingmönnum sem hafa tjáð sig í málinu, ótímabærar og illa rökstuddar. Ég tel liggja beint við að við bíðum eftir þeirri úttekt sem verið er að tala um, jafningjarýni, og engin ástæða sé til að vera með þennan asa í málinu, nema eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi fyrr í ræðu að menn væru að krossa í kladdann hjá sér við að koma einhverju máli í gegn. Þetta lyktar ansi mikið af því.

Heildarframlög til þróunarsamvinnu Íslendinga árið 2015 eru um 3,6 milljarðar. Af því fær Þróunarsamvinnustofnun Íslands 1,6 milljarða. Því miður er þetta ríflega helmingur af því sem stefnt var að í þeirri þróunarsamvinnuáætlun sem ég nefndi áðan fyrir árin 2013–2016. Hæstv. utanríkisráðherra talaði um í vor að hlutfallið yrði um 0,23%, en raunin var í fjárlögum að það er 0,21%, svo það minnkar. Við Íslendingar erum því miður miklir eftirbátar Norðurlandanna í þessum efnum og þurfum að bæta okkur til að vera á sama stað og önnur Norðurlönd.