145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[19:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu mati vantar sjötta gildið í 6. gr. sem væri forsjálni. Ég tel að hana hafi vantað mikið á árunum fyrir hrun, eins og hv. þingmaður veit manna best þar sem hann var mjög áberandi á þeim tíma að vara fólk við því sem gat gerst og sem svo gerðist.

Það er annað sem kom fram í ræðu hv. þingmanns sem mig langar að spyrja um. Það er einmitt það að 10. gr. ber ekki að virkja nema vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum. Það er greinilega mjög mikið sem þarf að gerast til þess að virkja greinina og það er réttilega svo.

Ég hef áhyggjur af því að menn fari ekki að huga að varúðinni af ótta við að styggja markaðinn. Ég man nefnilega eftir því fyrir hrun að ef menn stungu upp á því, og það var náttúrlega verst ef þeir voru trúverðugir, að það bjátaði eitthvað mikið á eða ástæða væri til inngripa eða að gera eitthvað því um líkt, eitthvað róttækt, þá vildu menn ekki hafa orðræðuna þannig af ótta við að styggja markaðinn og valda ótta og þar með rústa hagkerfinu. Þetta er ákveðin mótsögn sem ég sé alltaf í pólitískum umræðum um efnahagsmál. Okkur er einhvern veginn gert skylt að láta eins og allt sé í lagi. Hv. þingmaður hlýtur að þekkja þetta manna best.

Ég hef því áhyggjur af því í sambandi við 10. gr. að ef við erum ekki með eitthvert ferli eða einhvers konar prógram sem er virkt þegar allt er í góðu þá sjáum við ekki ógnina fyrr en það er orðið of seint, vegna þess að við forðumst að tala um hlutina eins og þeir eru einmitt þegar þeir fara að líta illa út.