145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Það má sannarlega til sanns vegar færa að það er mikill munur á þessu frumvarpi og því frumvarpi sem hæstv. þáverandi ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson lagði fram um það að fella lög nr. 60/2013 úr gildi. Við erum sem betur fer komin á annan stað nú tveimur árum síðar. Ég vil nota þetta tækifæri sérstaklega til að fagna því og þakka hæstv. ráðherra fyrir aðkomu hennar að því að freista þess að ná sameiginlegri lendingu í þessu máli.

Ég vil þó spyrja hæstv. ráðherra um eitt grundvallaratriði, það er ákvæðið sem lýtur að varúðarreglunni. Nú liggur það fyrir að með breytingunni sem lögð er til í þessu frumvarpi á varúðarreglunni í lögum nr. 60/2013 er gildissvið varúðarreglunnar þrengt.

Í lögunum frá 2013 nær reglan til ákvarðanatöku um skipulag, framkvæmd eða starfsleyfi, en í drögunum hins vegar aðeins um stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. ákvarðanir sem varða réttindi og skyldur einstaklinga, til dæmis leyfi en ekki skipulag eða almenn ákvæði um landnotkun.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra við hvaða athugasemdum hún er að bregðast með því að leggja þetta til. Í öðru lagi vil ég spyrja hvort þessi útfærsla á varúðarreglunni eins og hún leggur til í sínu frumvarpi sé í samræmi við það sem liggur fyrir í tillögum stjórnarskrárnefndar sem er einmitt að fjalla um þetta sama ákvæði og er að því er ég best veit að leggja til að varúðarreglan verði fest í stjórnarskrá Íslands.