145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst grafalvarlegt þegar verið er að vitna í formann verkefnisstjórnar og mistúlka orð hans. Hann taldi að það hefðu verið mistök að fara í flýtimeðferð, það hefði ekki verið hægt að vinna eftir þeirri aðferðafræði sem þeim var ætlað með því. Það voru mistökin.

Ég spyr: Ef það er fullyrt hérna að verkefnisstjórn fari ekki eftir lögum, sem er mjög grófur áburður á hendur verkefnisstjórnar og vantraust á hæstv. ráðherra, að þarna sé ekki verið að fara eftir lögum og ekki stjórnsýslu, á þetta mál þá ekki heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? Er hv. þm. Jón Gunnarsson orðinn sjálfskipaður rannsóknarréttur? Þetta eru engin vinnubrögð og stjórnsýsla. Við getum ekki boðið þinginu upp á slík vinnubrögð. (Forseti hringir.) Ég vil taka það fram að formaður verkefnisstjórnar fullyrti í morgun og hv. þm. Jón Gunnarsson ætti að geta tekið undir það að vinna nefndarinnar væri innan lagarammans. (Forseti hringir.) Það er mjög ósmekklegt af hv. þingmanni að tíunda og nafngreina menn í faghópum sem hann telur ekki hæfa til að starfa.