145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:39]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa góðu fyrirspurn. Í þessu samhengi vildi ég sérstaklega benda á 9. tölulið tillögunnar en um hann segir í greinargerðinni að átak í uppbyggingu á leiguíbúðum kunni að þurfa að vera tímabundið á einstökum svæðum en varanlegt á öðrum og geti lotið ólíkum lögmálum frá einu svæði til annars. Þannig er augljós langtímavandi í uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni og skortur á húsnæði til að tryggja virkan vinnumarkað á svæðum þar sem byggingarkostnaður er langt yfir markaðsvirði. Þar þarf að styrkja við leigumarkað til langframa.

Það er mjög athyglisvert þegar maður fer um landið að sjá hversu víða staðan er sú að ef glaðnar yfir atvinnulífi er bullandi húsnæðisskortur. Íbúðir frá Íbúðalánasjóði á norðanverðu Snæfellsnesi standa auðar en þær væri hægt að nýta. Það er ekkert húsnæði laust á Bíldudal þar sem ný verkefni eru að verða að veruleika í atvinnulífi svo ég taki bara tvö nýleg dæmi sem ég er búinn að vera að skoða.

Hugsunin hér er að ríki og sveitarfélög mundu leggja stofnstyrki í húsnæði og eiga húsnæðið sem yrði síðan leigt út. Við höfum dæmi um það frá fyrri tíð að það er ekki gott ef sveitarfélögin leggja ekki í áhættu vegna þess að frá fyrri tíð höfum við dæmi um að byggt var til að halda uppi atvinnu á ákveðnum stöðum, félagslegt húsnæði sem síðan var engin leið að fylla. Hins vegar er mikilvægt að alltaf sé til eitthvað af íbúðum til að taka við breytingum í atvinnulífi og tryggja vaxtarskilyrði atvinnugreina úti um land. Þetta held ég að sé sameiginlegt verkefni ríkisins og sveitarfélaganna með stofnstyrkjum til að mæta þar með því sem hv. þingmaður bendir réttilega á, þeirri staðreynd að verðmæti húsnæðisins (Forseti hringir.) minnkar um leið og það hefur verið byggt.