145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

beiting Dyflinnarreglugerðarinnar.

[15:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þann 17. september sl. var hérna ágætisumræða undir þessum dagskrárlið milli hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur og hæstv. innanríkisráðherra Ólafar Nordal um beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar.

Nýlega sáum við í fréttum að Hæstiréttur hefur úrskurðað að nú skuli senda tvo menn til Ítalíu til þess að mál þeirra verði þar tekin upp efnislega. Ísland hefur ákveðið að taka ekki mál þeirra til efnislegrar umfjöllunar til að ákvarða hvort þeim beri að veita hæli eður ei, heldur skuli þeir frekar sendir til Ítalíu. Í téðum umræðum sagði hæstv. innanríkisráðherra að hún teldi Ítalíu, Grikkland og Ungverjaland ekki örugg lönd. Ég held að allir sem hér eru inni og þótt víðar væri leitað séu því hjartanlega sammála.

Því verður að spyrja: Hvað gerum við núna fyrst senda á þessa tvo menn úr landi til lands sem við vitum að er óöruggt? Við vitum að þeir koma til með að búa á götunni, bókstaflega, róta í ruslatunnum ef vel fer, þ.e. ef þeir verða ekki sendir til baka sem yrði tilfellið ef Ítalía hefði burði til að meðhöndla mál þeirra.

Þetta liggur fyrir nú þegar. Það er ljóst að það er brotalöm í kerfinu. Ég velti fyrir mér hvort afstaða hæstv. ráðherra frá 17. september sé enn sú sama. Hvernig lítur hæstv. ráðherra á að kerfið virki nú þegar? Sömuleiðis velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir því að við lögum þau vandamál og förum að taka upp fleiri mál til efnismeðferðar og hættum að nota Dyflinnarreglugerðina, misnota hana leyfi ég mér að segja, til að senda burt fólk án þess að taka mál þess til efnislegrar umfjöllunar.