145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

fjárhagslegur stuðningur við öryrkja í framhaldsskólanámi.

129. mál
[16:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Málefni þess hóps sem hv. þingmaður ræðir er mjög mikilvægt. Við búum í fámennu samfélagi og hvert og eitt okkar skiptir máli. Menntakerfið er án nokkurs vafa besta leiðin sem við höfum, besta tækið sem við höfum til þess að gera hverjum og einum einstaklingi kleift að verða nýtur og góður þjóðfélagsþegn. Við vitum að það er vandamál í kerfinu að stór hluti krakkanna okkar dettur út á framhaldsskólaaldri og miklu meira en geri annars staðar og námsframvinda er miklu hægari hér en gerist víða annars staðar. Það eru vandamál hjá okkur í þessu kerfi.

Eitt sjáum við líka sem ég tel að menn verði að horfast í augu við. Þegar horft er á brottfallið úr framhaldsskóla kemur í ljós samkvæmt rannsóknum að hlutfallið er langmest í aldurshópnum 20 ára og eldri. Það beinir auðvitað sjónum okkar að þeim námsúrræðum sem við höfum þróað fyrir þann hóp. Það er ekki víst að sama kerfi og þau duttu út úr sé endilega besta kerfið til að koma inn í aftur tíu árum síðar, með sömu áherslunum, kerfi sem er í raun og veru byggt upp fyrir annan aldurshóp. Mikill yfirgnæfandi hluti nemenda á þessu skólastigi er á ákveðnum aldri. Það getur verið heilmikið mál fyrir fullorðinn einstakling að ætla að fara að setjast aftur á skólabekk og setjast með unglingum þar í nám.

Enn og aftur: Tölurnar tala sínu máli og sýna að það er mesta hlutfallslega brottfallið hjá þeim sem eru orðnir 20 ára og eldri. Við þurfum að sýna meiri metnað í því að búa til og þróa og þroska námsúrræði fyrir þá sem eldri eru heldur en vísa þeim bara inn í skólastofnanir sem eru ætlaðar (Forseti hringir.) fyrir þá sem að meginstofni til eru á aldrinum 16–20 ára.