145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:16]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta. Mér heyrist á hæstv. ráðherra að þarna sé einhvers konar samkomulag, ef maður má segja það, um að þessi fyrirtæki eða félög muni greiða stöðugleikaframlag í stað þess að greiða tekjuskattinn. Er það rétt skilið hjá mér? Ég verð bara að hugsa hvort þetta sé eðlilegt yfir höfuð. Er eðlilegt að við tökum einhver sérstök félög og gefum þeim undanþágu frá því að greiða tekjuskatt af skuldabréfum sem eru gefin út á Íslandi? Er ekki eðlilegt að greiða tekjuskatt? Hvað erum við gera ef við veitum þessum bréfum undanþágu, erum við þá ekki í raun og veru að gefa þeim 20% afslátt af vaxtamöguleikum? Hvaða áhrif mun það síðan hafa á eftirsölumarkaðinn af skuldabréfum? Þetta er náttúrlega mjög flókið. Hæstv. ráðherra hefur kannski meiri innsýn í þetta en ég en mér finnst þetta í fyrstu andrá líta svolítið óeðlilega út og set spurningarmerki við hvort þarna séu einhverjar fleiri upplýsingar sem við mundum þurfa að fá til þess að skilja niðurstöðu hæstv. ráðherra.