145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

afsláttur erlendra kröfuhafa slitabúa bankanna.

[13:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fréttir bárust af því í síðustu viku að til stæði að ljúka afgreiðslu mála er vörðuðu stöðu slitabúanna og að ríkisstjórnin væri komin á fremsta hlunn með ákvörðun um að veita gríðarlegan afslátt frá stöðugleikaskatti gegn greiðslu stöðugleikaframlaga frá slitabúunum. Eins og við munum öll voru samþykkt hér í sumar lög um álagningu stöðugleikaskatts sem átti að skila um 680 milljörðum í ríkissjóð en samkvæmt fréttum stóð til að leyfa slitabúunum að komast fríum út úr landi gegn greiðslu 330 milljarða. Það átti að veita meira en helmingsafslátt af skattinum.

Forsendur þessa afsláttar og þessarar eftirgjafar ríkisstjórnarinnar til erlendra kröfuhafa voru hins vegar ekki ljósar. Svo bar það við að kynnt var að útgáfu fjármálastöðugleikarits Seðlabanka Íslands hefði verið frestað um óákveðinn tíma. Ég óskaði hér á miðvikudaginn í síðustu viku eftir fundi formanna flokkanna til að fara yfir forsendur þessara ákvarðana því að mér þykir eðlilegt að ríkisstjórnarflokkarnir og forustumenn þeirra útskýri hvaða forsendur liggi til grundvallar ákvörðun þeirra um að veita erlendum kröfuhöfum þessa miklu afslætti.

Við þeirri beiðni minni um fund hefur ekki verið orðið. Hæstv. forsætisráðherra tók vel í slíkan fund hér í fyrirspurnatíma á fimmtudaginn var en ekkert hefur gerst. Það hefur ekki verið boðað til fundar í samráðsnefnd um afnám hafta þar sem fulltrúar allra flokka eiga sæti og hæstv. forsætisráðherra hefur ekki haft frumkvæði að því að kalla saman formenn flokkanna.

Ég vil þess vegna ítreka spurninguna til hæstv. forsætisráðherra: Stendur ekki til (Forseti hringir.) að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar útskýri fyrir fulltrúum annarra stjórnmálaflokka þær efnislegu forsendur sem eru fyrir afslætti til erlendra kröfuhafa? Og þykir ekki hæstv. forsætisráðherra eðlilegt að þær forsendur verði gerðar opinberar þannig að hægt sé að svara eðlilegum athugasemdum, m.a. Indefence, um að verið að sé að ganga of langt?