145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna og athyglina sem þetta mál vekur. Það sýnir að þingmönnum finnst málið mikilvægt og að taka þessa umræðu. Hæstv. heilbrigðisráðherra sat töluvert undir umræðunni þegar málið var rætt á síðasta þingi. Ég vil upplýsa að málið hefur lítið breyst síðan þá og umræðan hefur ekkert breyst heldur þannig að hæstv. ráðherra hefur verið viðstaddur þetta. Hér hefur verið komið inn á yfirstandandi verkföll þannig að ég veit ekki hvort hann er að sinna þeim núna og tel brýnna að hann sé að því.

Varðandi dagskrá þingsins vil ég bara bera það upp hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að hún sé ákveðin af forseta þingsins í samstarfi við forsætisnefnd og þingflokksformenn. Það er fyrirkomulagið sem er sett þannig að ef þetta mál væri ekki á dagskrá núna væru önnur þingmannamál á dagskránni, jafn mikilvæg. Ég vil benda á að aðrir dagskrárliðir til að ræða mál sem eru uppi í þjóðfélaginu fara fyrr fram, eins og sérstök umræða og fyrirspurnir (Forseti hringir.) til ráðherra sem hafa verið hér fyrr á dagskrá.