145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:32]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir fína ræðu. Ég verð að segja að hv. þingmaður fór inn á margar breytur sem ég kallaði svolítið eftir í minni ræðu og það var vel.

Hv. þingmaður kom inn á það að margir kæmu að máli við sig og furðuðu sig á því að þetta mál hefði forgang og það hefur jafnframt heyrst úr ræðustól hér að það sé allt að því ekki nægilega merkilegt til að vera á dagskrá virðulegs forseta. Mig langar að spyrja hv. þingmann um skoðun hennar á því að hafa málið á dagskrá. Ég set það í samhengi við það að hv. þingmaður kom inn á að hér vegast á lýðheilsusjónarmið og sparnaðarsjónarmið. Gefum okkur að sparnaðurinn yrði fyrsta árið 8 milljarðar og síðan 3 milljarðar árlega þar á eftir og stillum svo upp allri umræðunni um mikilvægi lýðheilsu gagnvart þessu vandamáli.