145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hún vísaði til þess að hún hefði legið mikið yfir umsögnunum þegar þetta mál var síðast til umfjöllunar og sagði að ýmis konar forvarnasamtök, félagasamtök og aðrir hefðu lagst hart gegn þessu frumvarpi. Var þar einhver sem vinnur að lýðheilsumálum eða forvörnum sem mátti skilja sem svo að aukið aðgengi væri eitthvað betra en það fyrirkomulag sem er núna?

Nú í dag glímir heilbrigðiskerfið í landinu við afleiðingar ofneyslu áfengis. Ég veit ekki hvort það hefur verið mælt eða reynt að greina hvað það kostar íslenska ríkið nákvæmleg að mæta áfengissjúkdómum með einum eða öðrum hætti í þjóðfélaginu en það eru örugglega mjög háar tölur. Telur hv. þingmaður að verslanir muni nokkurn tímann koma til með að taka þá ábyrgð á sig að standa undir þeim heilbrigðiskostnaði sem þessu fylgir líkt og ríkið gerir með því að hafa í dag einkarétt á sölu áfengis en tekur ábyrgðina á afleiðingunum?

Mér finnst á þeim sem mæla þessu bót að það skipti sköpum að verslun í landinu geti aukið framlegð sína. Á það að vera á kostnað barnanna okkar, ungmenna og þeirra sem veikast standa gagnvart áfengi?