145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:59]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir mjög góða ræðu. Hún ræddi um samfélagslega ábyrgð og forvarnir og þá keðju sem skiptir svo miklu máli að margir aðilar standi saman að forvörnum. Hún er í raun búin að lýsa áhyggjum sínum af því að stórmarkaðirnir muni kannski ekki taka jafn mikinn þátt í því starfi.

Það leiðir hugann í átt að auglýsingum. Eins og komið hefur margoft fram hér er bannað að auglýsa áfengi á Íslandi en það eru ýmsar leiðir sem hægt er að fara í kringum það. Við sjáum það, eins og í erlendum blöðum og á kappleikjum. Við horfum á kappleiki í sjónvarpi þar sem eru áfengisauglýsingar í beinni útsendingu. Telur hv. þingmaður að þetta sé eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af? Er líklegt að stórmarkaðir og verslunarkeðjur muni reyna að nýta sér þær glufur sem eru í kerfinu eins og að auglýsa léttöl og annað slíkt? Telur hv. þingmaður að það sé líklegt að við sjáum meira af slíkum auglýsingum?