145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í byrjun ræðu minnar lýsa enn og aftur vonbrigðum yfir því að sex klukkutímar dugi ekki til að við fáum skýrari svör um fjarveru hæstv. heilbrigðisráðherra sem við höfum gert athugasemdir við, fyrst klukkan tólf á hádegi og svo aftur klukkan sex. Okkur er tjáð nánast með sömu orðum klukkan sex að honum hafi verið gert viðvart um óskir Alþingis. Ég verð að segja það, forseti, að ég sat í æðislega hressri og skemmtilegri ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og það kom þó nokkuð oft fyrir að ég var kölluð til þings og mér var bara sagt af forustufólki mínu að manni bæri að koma til Alþingis þegar kallað væri eftir því. Það var stundum kallað eftir því klukkan tvö um nótt og þá var ekkert smekksatriði hvort maður ætti að koma til þings eða ekki. Það var stöðug áminning um að ríkisstjórnin væri þingbundin og bæri þess vegna að lúta vilja Alþingis. Ég er mjög hugsi yfir því hversu mikla léttúð við sjáum í samskiptum á þessu kjörtímabili. Mér finnst það vera eins og eitthvert formsatriði hvernig slíkt er afgreitt og þar með talið sú eðlilega, málefnalega og rökstudda beiðni sem hefur komið hér fram ítrekað við umræðu um þetta þingmál.

Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, eins og hér hefur komið fram. Það sem mig langar að segja í fyrsta lagi er að í loftinu liggur spurningin: Af hverju þetta mál? Hvað er að? Hvert er vandamálið sem þarf að leysa með nýrri löggjöf? Við eigum sem löggjafi að horfast í augu við frumvörp eða þingsályktunartillögur sem við erum að vinna með hér og spyrja okkur hver þörf samfélagsins sé á nákvæmlega þessari réttarbót. Hvert er vandamálið sem við horfumst í augu við?

Ég tek undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á hér áðan, að sönnunarbyrðin er hjá þeim sem koma fram með málið. Þeir eiga að færa rök fyrir því að það sé til bóta. Þau rök hafa verið veik vegna þess að þau hafa ekki verið studd faglegum rökum og þekkingu í nægjanlega ríkum mæli að því er varðar tilvísun í þær stofnanir í samfélaginu og þá alþjóðasamninga sem við erum aðilar að og eiga best að þekkja til meðferðar áfengis og vímuefna og áhrifa þeirra á fjölskyldur og samfélög.

Mér fannst mjög áhugaverð orðaskiptin á milli hv. þm. Róberts Marshalls og hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar þegar sjónum var beint að því hvort rétt væri að tala um þetta mál í sömu andrá og hugtakið frelsi. Ég verð svo þakklát þegar fólk kemur orði að því sem búið er að vera bögglast í hausnum á mér og það gerðist svolítið í þessari umræðu þegar hv. þm. Róbert Marshall benti á að þetta mál snerist um að draga úr veseni fyrir þá sem vilja kaupa sér áfengi. Það snýst ekki um að auka frelsi neins vegna þess að það er hægt að ná sé í áfengi, það er ekki verið að skerða frelsi neins til þess. Þetta frumvarp er lagt fram til að draga úr snúningum, (Gripið fram í.) vandræðum og veseni viðkomandi.

Hvaða vandi er í raun og veru á ferð þegar við beinum síðan augum að þeim félagslegu sjónarmiðum sem hér hafa líka verið dregin fram í umræðunni? Mig langar að bæta inn í umræðuna sem hér hefur verið viðhöfð hugsuninni um frelsi þeirra sem velja sér líf án vímuefna, sem velja að vera edrú. Það var aðeins komið inn á það hér áðan en mig langar og bæta við það og spyrja: Er það ekki ákveðin frelsisskerðing þess hóps ef það fólk sem kýs að lifa edrú með þeim verkefnum sem það felur í sér, eins og að sækja fundi o.s.frv., þarf að þola það að daglega rýmið sé í raun og veru að ota að því vörunni sem glíman snýst um á hverjum einasta degi, að geta ekki farið í matvöruverslun án þess að þurfa að vera áminnt um þessa glímu? Þá spyr maður hvort daglega lífið sé ekki orðið of ágengt og krefjandi vegna þess að Alþingi hafi á einhverjum tímapunkti ákveðið að draga úr veseni fyrir þann hóp sem hugsanlega og vonandi eigi ekki í vandræðum með neyslu á þessari vöru. Gæti maður þá kannski talað um tillitssemi? Gæti maður talað um að þetta snerist um að byggja samfélag þar sem við tökum tillit til þess að fólk er á mismunandi stað í lífinu og þeir sem vilja nota áfengi og njóta þess eigi bara að vera tilbúnir að leggja lykkju á leið sína til þess að kaupa áfengi vegna þess að það sé tiltekin ákvörðun að stíga inn í verslun þar sem áfengi er að fá og það eigi ekki að þurfa að vera hluti af daglegu lífi allra hinna sem jafnvel hafa kosið sér öðruvísi líf? Mér finnst þetta vera hugsun sem maður getur leyft sér að fara aðeins inn í.

Mér fannst mjög áhugavert að sjá umsögn frá Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd sem kom fram við þinglega meðferð málsins á síðasta þingi. Þessi háskólastofnun er staðsett á lóð Háskóla Íslands í félagsráðgjafardeildinni. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Fulltrúar fjármagns og gróðasjónarmiða hafa haft slík áhrif í samfélagi okkar undanfarið að þjóðarógn hefur stafað af — og gerir enn. “

Þetta er ekki gamall leiðari úr Þjóðviljanum. Hér er verið að tala um umsögn Rannsóknastofnunar í barna og fjölskylduvernd frá því í mars 2015. Segir svo, með leyfi forseta:

„Rökstuðningur fyrir þessu frumvarpi“ — það er frumvarpið sem er til umræðu — „speglar verðmætamat og hagsmunaáherslur sem einkenna þessi sömu markaðsöfl. Hér má heyra sjónarmið talsmanna óheftrar frjálshyggju og skeytingarleysis um gildi mannauðs og barnaverndar.“

Hér er tekið mjög djúpt í árinni, þetta er gríðarlega pólitísk umsögn. Þetta er umsögn sem tekur í raun og veru dýpra á pólitískum grunni þessarar tillögu en við höfum að jafnaði verið að ræða hér í þingsal. Hér höfum við fyrst og fremst verið að ræða togstreituna á milli annars vegar þess sem kallað er einhvers konar frelsissjónarmið, ýmist persónufrelsis eða viðskiptafrelsis, og hins vegar sjónarmið lýðheilsu og heildar- og almannahagsmuna. Mér finnst þetta mjög áhugaverður punktur og full ástæða til að staldra við þetta: „Hér má heyra sjónarmið talsmanna óheftrar frjálshyggju og skeytingarleysis um gildi mannauðs og barnaverndar.“ Þessa tóna heyrir maður nefnilega ítrekað í orðum þeirra sem mæla fyrir þessu máli og eru stuðningsmenn þess, þ.e. frjálshyggja í þeim skilningi að það sé hverjum og einum í sjálfsvald sett hvernig hann umgengst áfengi og hvort það hefur áhrif á annað fólk, það er bara eitthvað sem annað fólk finnur út úr.

Frá þessu sjónarhorni eru hugtök og viðfangsefni eins og barnavernd í raun og veru einskis virði. Barnaverndarmál eru nefnilega þau viðfangsefni þar sem stofnanir og samfélagið í heild hafa sammælst um að börn eigi rétt á ríkari vernd en þeirri sem fjölskyldan getur veitt þeim þegar illa gengur, þau eigi rétt á ríkari varðstöðu um hagsmuni sína og lífsgæði en fjölskyldur sem eiga í vanda geta veitt þeim. Þetta er gríðarlega mikilvæg hugsun. Þetta er hugsunin um það að börn eigi rétt á samfélagi og að samfélagið beri allt ábyrgð á börnunum og velferð þeirra. Þetta er að finna í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessa hugsun er að finna í alls konar alþjóðlegum sáttmálum sem við erum aðilar að en þessa hugsun er ekki að finna í frumvarpi hv. þingmanna. Þessi hugsun er algjörlega fyrir utan það.

Menn segja jafnvel: Þetta er ekki það sem við erum að ræða hér. En bíðið nú aðeins við! Umboðsmaður barna, Læknafélag Íslands, embætti landlæknis og allir þessir aðilar tala um að hagsmunir barna séu í hættu við samþykkt þessa frumvarps. Af hverju eru hagsmunir barna í hættu? Það er vegna þess að börn eru viðkvæmur hópur af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að börn hafa ekki völd og í öðru lagi vegna þess að börn hafa ekki rödd. Af þessum ástæðum ber okkur sem erum kjörnir fulltrúar á Alþingi, í sveitarstjórnum eða hvar sem við njótum trúnaðartrausts samfélagsins að hlusta eftir þörfum þeirra sem ekki hafa rödd og hlusta eftir röddum þeirra sem ekki hafa völd. Það eru börn. Þegar umboðsmaður barna, Læknafélag Íslands og embætti landlæknis benda okkur á þetta, hvað eigum við þá að gera? Eigum við þá að fara að tala um að þetta séu gamlar hugmyndir, að þetta snúist um sjónarmið sem gangi út á frelsi, val eða eitthvað slíkt? Er það þannig sem við eigum að nálgast þessa hugsun og umræðuna? Það einkennist af skeytingarleysi að gera það. Mér finnst stórmerkilegt í sjálfu sér, sjö árum eftir efnahagshrun, að við séum enn þar stödd að leyfa okkur málflutning sem byggir á slíku skeytingarleysi og að við leyfum okkur málflutning sem byggir á því að ákvarðanir þurfi ekki að byggja á rökstuðningi og þekkingu.

Virðulegur forseti. Mig langar í lokin að vísa í umsögn landlæknisembættisins við málið á síðast þingi þar sem segir að landlæknir leggi áherslu á mikilvægi þess að samhljómur sé í löggjöf frá Alþingi og stefnu stjórnvalda um málefni sem varða lýðheilsu, eins og um aðgerðir gegn heimilisofbeldi, geðheilbrigðisstefnu og heilbrigðisáætlun til 2020, en í henni sé eitt af markmiðum að draga úr áfengisneyslu meðal landsmanna. Það að hunsa leiðsögn landlæknis gengur ekki án þess að vera með málflutning sem er studdur mjög sterkum rökum sem halda hinu gagnstæða fram. Það gengur ekki öðruvísi, virðulegi forseti.

Í stefnu íslenska ríkisins, velferðarráðuneytisins, í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 eru yfirmarkmið þar sem segir að markmið númer eitt sé:

„Samfélag sem einkennist af heilbrigðu umhverfi þar sem einstaklingum stafar ekki hætta af notkun eða misnotkun áfengis eða annarra vímugjafa.“

Til þess að nálgast það markmið er ein mikilvægasta aðgerðin að viðhafa aðhaldsaðgerðir „varðandi sölufyrirkomulag áfengis, virkt eftirlit með notkun lyfseðilsskyldra lyfja, öflugri löggæslu og virku tolleftirliti“. Sölufyrirkomulag áfengis er sérstaklega nefnt sem viðfangsefni, þ.e. ekki að víkka eða auðvelda aðgengi. Í öðru lagi er að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa og þá fyrst og fremst börn. Einnig að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi eða aðra vímugjafa, að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur, eins og kom hér fram áðan þá er alkóhólismi prógressífur sjúkdómur sem getur vaxið við kjöraðstæður, ef svo má að orði komast, að tryggja aðgengi fólks sem á í vanda að samfelldri og samþættri þjónustu og draga úr skaða á fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra. Þetta er stefna stjórnvalda og ég hefði gaman af því að sjá það einhvers staðar að menn gætu rökstutt það að með því að gera þingmálið sem hér er til umfjöllunar að lögum (Forseti hringir.) þá nálguðumst við þessi markmið með einhverju móti.