145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til þess að reyna að leggja hæstv. forseta lið í því að minna hæstv. forsætisráðherra á það hvað hann hefur sjálfur verið að gera í verðtryggingarmálum og hvar málaflokkurinn liggur hjá þessari ríkisstjórn. Þó að í sögulegu samhengi hafi verðtryggingarmál og efnahagsmál verið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er það nefnilega öðruvísi hjá þessari ríkisstjórn.

Með leyfi forseta, ætla ég að vitna í erindisbréf sérfræðingahóps sem forsætisráðherra skipaði þann 16. ágúst 2013. Þar segir:

„Verkefni sérfræðingahópsins verði að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána. Tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í árslok 2013. Hópurinn meti áhrif þessarar breytingar í víðum skilningi og geri tillögur til þess að lágmarka neikvæð áhrif …“

Þessari skýrslu var síðan skilað til forsætisráðherra. Hann gaf hana út. Forsætisráðuneytið gaf hana út. Þannig að málaflokkurinn er klárlega á hendi forsætisráðherra. Og hann getur ekki vísað þessu frá sér.

Virðulegi forseti. Ég vil því leggja til að það (Forseti hringir.) verði farið aftur til forsætisráðherra og hann krafinn um að standa skil á verkum sínum í þessum stól.