145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins.

251. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil segja að ég sem Íslendingur er mjög stolt af þessu framlagi okkar til Feneyjatvíæringsins og ég er stolt af því að við skulum hafa sýnt þann dug að senda umdeilt verkefni inn á þá sýningu og þennan ólympíuleikvang ef svo má að orði komast. Ég tel að Ísland eigi tvímælalaust að halda áfram þátttöku sinni þar eins og við höfum gert síðastliðin 55 ár. En ég tel ákveðna hættu á því eftir það sem gerst hefur núna að einhvers konar sjálfsritskoðun verði beitt á næstu framlög, því að það er auðvitað ekkert grín að leggja mikið undir og senda verk á viðburð sem þennan og þurfa svo að sæta því að verkið fái ekki notið sín og sé ritskoðað með þessum hætti. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við förum með málið eins langt og mögulegt er, að við sýnum að við teljum þetta ekki bara óþolandi við framlag Íslands, heldur beinlínis ógn við tjáningarfrelsi listamanna sem og annarra.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér að að öllu öðru óbreyttu sé ákveðin hætta á sjálfsritskoðun, og ég spyr hann jafnframt hvort hann sé tilbúinn til þess að fara yfir það með hvaða hætti Ísland geti áfrýjað þeim niðurstöðum sem fengust fyrir dómstólum í Feneyjum og það sé þá þar til bær aðili, hvort sem það er menntamálaráðherra, utanríkisráðherra eða einhver annar, sem gangi í það mál fyrir okkur öll.