145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur með framgöngu sinni í þessu máli og stjórnarmeirihlutinn rofið þá samstöðu sem við lögðum mikið á okkur að byggja upp um þetta mál í þágu þjóðarhagsmuna vegna þess að við töldum að það skipti miklu máli að sýna einhuga sveit þegar kæmi að því að berjast fyrir íslenskum hagsmunum. Það er mikill losaragangur á vinnslu þessa máls eins og sést á endurteknum breytingartillögum við það, og nú síðast hlaupum hér í kvöld. Eiginlega toppar það allt þegar ákveðið er að boða á morgun, þegar búið verður að samþykkja lögin öll, til fundar í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ræddar verði eðlilegar og óhjákvæmilegar athugasemdir sem komið hafa fram frá Indefence eftir að búið er að ganga frá lagaumbúnaðinum. Ekkert sýnir betur hversu illa hefur verið staðið að málinu og (Forseti hringir.) þjóðinni og óháðum sérfræðingum ekki gefist færi til þess að koma að málinu í tíma, koma athugasemdum á framfæri þannig að alvöruumræða verði um þetta mikilvæga hagsmunamál. (Forseti hringir.) Það er þess vegna óhjákvæmilegt að sitja hjá og það er sorglegt að ríkisstjórnin skuli ekki standa undir traustinu sem henni var sýnt.