145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mér finnst svolítið einkennilegt að ekki hafi verið ákveðið að kalla eftir því í dag að fá að heyra betur og svara fyrir það sem komið hefur fram í umsögn frá Indefence. Mér finnst það nauðsynlegt út frá því að þeir sem fara nú fyrir ríkisstjórn landsins eða fara með stjórnartaumana treystu mjög þeim aðilum sem starfa innan Indefence, því finnst mér einkennilegt að ekki sé vilji til að hitta þá fyrr en eftir að búið er að afgreiða málið, ég verð bara að segja það.

Það eru margar spurningar sem hafa komið upp sem ég hefði viljað fá svör við, eins og t.d. hvort það sé ekki alveg öruggt að lífeyrissjóðirnir, almenningur og fyrirtæki landsins lokist ekki inni eftir þessa aðgerð. Mér finnst óþægilegt að fara óupplýst í gegnum svona flókið og stórt mál. Ég hefði viljað geta stutt málið, það verður að segjast eins og er. En ég get það ekki af því að ógagnsæið og svaraleysið er svo mikið.