145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[22:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég tók fram áðan í öðru andsvari var að ríkisstjórnin hefur haldið þessu í algeru lágmarki og ég hef keppst við að halda frá fjáraukalögum málum sem frekar ættu heima inni á fjárlögum næsta árs. Það hafa komið einhverjar tillögur í fjáraukalögum undanfarin ár og það má kannski finna dæmi í þessu fjáraukalagafrumvarpi þar sem menn geta spurt sig: Eru þetta útgjöld sem með öllu voru ófyrirséð? Það má eflaust finna einhver dæmi um slíkt. En við komum þá með þau hingað með skýringum og ég er ávallt tilbúinn til að taka þá umræðu og á endanum er það undir þinginu sjálfu komið hvort það ber að fallast á þau rök sem færð eru fyrir þegar þetta á við. Ég nefndi sérstaklega vegaframkvæmdir í fyrra andsvari, (Forseti hringir.) en við hv. þingmaður erum í grundvallaratriðum sammála um að fjáraukalögin hafa lögboðinn tilgang og það ber að halda sig við hann.