145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

NPA-þjónusta við fatlað fólk.

[14:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er ánægð að heyra að hæstv. ráðherra sé að fara að setjast niður með sveitarfélögunum og ég vona að þar verði fundin viðunandi lausn. Ég endurtek að það er búið að taka ákvörðun um það á Alþingi Íslendinga að NPA verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk þannig að sú ákvörðun liggur fyrir og við fólum framkvæmdarvaldinu að tryggja að svo gæti orðið. Deilur sem þessar um fjármuni milli ríkis og sveitarfélaga eru algengar en í þessu tilviki er um frelsi 50 einstaklinga til að stjórna lífi sínu að ræða og það mál verður að leysa. Slíkt óöryggi er ekki hægt að bjóða fólki upp á.

Þess vegna hvet ég ráðherra til að leggja sig alla fram um að eyða óvissu sem fyrst og lýsa yfir að fólki verði áfram tryggt frelsi yfir eigin lífi.