145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

þekking á einkennum ofbeldis.

[14:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að það sé sem betur fer rétt að það sé að verða vitundarvakning um að fatlað fólk sé beitt ofbeldi og að það sé mikil hætta á því að fatlað fólk sé beitt ofbeldi hreinlega inni á stofnunum, þar meðtalið kynferðisofbeldi, en stundum hefur verið litið á fatlað fólk sem hálfkynlausar verur og þess vegna hefur hreinlega ekki verið gert ráð fyrir þeim möguleika að það sé beitt kynferðisofbeldi. Ég held því að umræðan um það sé til bóta. Ég held líka að það sé rétt að ekki sé næg þekking á þessum málum, þ.e. það er mikil fræðileg þekking fyrir hendi en ég held að það vanti að koma þeirri þekkingu til þeirra sem starfa með fötluðu fólki. Það mun kosta eitthvað að halda slík námskeið eða að standa fyrir slíkri fræðslu. (Forseti hringir.)

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hyggst hún beita sér fyrir því að eyrnamerktir verði fjármunir til að hægt sé að fara af stað með svona fræðsluverkefni?