145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

Haf- og vatnarannsóknir.

199. mál
[19:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar. Líkt og forseti hefur kynnt verður í einu nefndaráliti gerð grein fyrir tveimur frumvörpum sem ég mun þá kynna hér. Markmið frumvarpanna er að sameina Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun í eina stofnun er beri heitið Haf- og vatnarannsóknir.

Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um nýja rannsókn á ráðgjafarstofnun þar sem kveðið er á um ráðgjafarnefnd forstjóra, hlutverk stofnunarinnar, samstarf við háskóla o.fl. og hins vegar frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar stofnana.

Meiri hluti atvinnuveganefndar lagði fram breytingartillögur við frumvörpin á síðasta þingi og eru þær nú endurfluttar af meiri hlutanum. Eru þær á þskj. 328 og 329. Annars vegar er um að ræða nokkrar lagfæringar á frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Hins vegar er lagt til að við frumvarp til laga um Haf- og vatnarannsóknir bætist ákvæði í þá veru að starfsmenn haldi kjarasamningsbundnum réttindum sem lúta að endurmenntunarleyfi og lengdum uppsagnarfresti eftir samfellt starf hjá sömu stofnun.

Í ákvæði til bráðabirgða við frumvarp til laga um Haf- og vatnarannsóknir er kveðið á um að unnt verði að skipa forstjóra við hina nýju stofnun við gildistöku laganna verði frumvarpið að lögum. Þar sem kveðið er á um gildistöku laganna 1. janúar 2016 mun forstjóri hinnar nýju stofnunar hafa tíma til að undirbúa skipulag og starfsemi hennar.

Við umfjöllun um málin voru gerðar athugasemdir við niðurlagningu starfa stofnananna. Meiri hlutinn telur mikilvægt að forstjóri hinnar nýju stofnunar hafi svigrúm til að skipuleggja starfsemi hennar og vonar að vel takist til við það verkefni. Þá bindur meiri hlutinn vonir við að sem minnst röskun verði á högum starfsmanna og mælist til þess að samráð verði haft við þá eftir því sem mögulegt er.

Meiri hlutinn telur líka brýnt að tilfallandi kostnaður vegna sameiningar stofnananna bitni ekki á starfsemi þeirra heldur verði þeim kostnaði mætt með sérstökum fjárheimildum til að standa straum af honum.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Erna Indriðadóttir, Páll Jóhann Pálsson og Þorsteinn Sæmundsson.