145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um hvort hún geti átt von á einhverju meira frá ríkisstjórninni fyrir 2. umr. fjárlaga er ánægjulegt að heyra hvaða vonir eru bundnar við ríkisstjórnina og fjárlagagerðina. Við höfðum gert ráð fyrir því í vinnu okkar við fjárlögin og útdeilingu á því útgjaldasvigrúmi sem við höfum, að geta brúað þá þætti sem snúa að heilbrigðisráðuneytinu við framkvæmd þessarar stefnu, þó svo að við værum ekki búin að leggja hana fram í þinginu. En það kann að vera að sá þáttur sem hér kom til umræðu í andsvari varðandi barna- og unglingageðdeildina, BUGL, að það væri fullkomlega eðlilegt að við skoðuðum það í samstarfi ráðuneytisins og þingsins vegna fjárlagagerðarinnar að flýta því verkefni í stað þess að keyra það inn á árið 2017.

Varðandi fyrirspurn um Hug og heilsu og skimun hefur það verkefni verið keyrt áður víða um land, m.a. á Akureyri, sem er, eins og við vitum, ég og hv. þingmaður, sveitarfélag í okkar ágæta Norðausturkjördæmi.